Sunday, June 15, 2014

Ætlar Miami í sumarfrí í nótt?


Það lítur sannarlega út fyrir það, já, að þetta sé búið. Það er alltaf pínulítið neyðarlegt þegar annað liðið í lokaúrslitunum lætur ljós sitt skína og spilar af krafti, en hitt á í vandræðum. Þannig er þetta hjá San Antonio og Miami núna. Texasliðið fer gjörsamlega hamförum, meðan Sólstrandargæjarnir virka and- og áhugalausir.

Með fullri virðingu fyrir frábæru liði San Antonio, erum við að verða vitni að því að spár manna eins og Steve Kerr eru að verða að veruleika. Meistarar Miami eru einfaldlega bensínlausir.

Öll meistaralið í NBA eru góð í vörn og sókn, en eins og sóknarleikur Miami getur verið magnaður þegar hann er upp á sitt besta, var það öðru fremur varnarleikurinn sem tryggði liðinu titlana tvo. Þessi varnarleikur er ekki lengur til staðar og það er ekki síst þess vegna sem San Antonio getur tryggt sér meistaratitilinn í fimmta leik liðanna í úrslitunum í nótt.

Lykilmenn Miami í varnarleiknum eru margir hverjir komnir af léttasta skeiði, eru meiddir eða virka hreinlega þreyttir og orkulausir. Það er skiljanlega ekki uppskriftin að meistaratöktum í varnarleik og það höfum við séð í síðustu tveimur leikjum í úrslitaeinvíginu.

Það er eitt að andstæðingurinn detti í stuð á heimavellinum þínum, hitti bókstaflega úr öllum skotum, spili góða vörn og bursti þig. Það kemur fyrir. Oft, meira að segja.

En að lið skuli láta jafna sig við jörðu í tveimur heimaleikjum í röð? Það er ekki hægt. Það má bara ekki. Þessir stóru skellir segja dálítið til um stöðuna á Miami núna. Enn og aftur, Spurs er að spila ljómandi vel, en fyrirstaðan er fjarri því eins mikil og hún var á síðustu leiktíð.

En þetta er ekki bara í varnarleiknum.

Miami er svo sem ekki búið að vera að hitta eitthvað illa, þannig séð. Það sem helst vantar upp á í sókninni hjá þeim er að passa boltann og fá framlag frá fleiri mönnum. Allir þessir töpuðu boltar hjá Miami hafa sérstaklega verið rándýrir.

Svo er það náttúrulega Dwyane Wade...

Við erum að verða þreytt á því að finna að Wade ræflinum, en staðreyndin er bara sú að hann er að verða búinn á því - og það þó hann sé tæknilega enn á besta aldri sem leikmaður. Það er sorglegt, en þarna er verið að refsa honum fyrir alla hörðu árekstrana og gólfskellina í gegn um árin og ekki síður slæma læknisfræðilega ákvarðanatöku (hnéð á honum).

Við fylgdumst extra vel með Wade í síðasta leik og það var pínlegt.

Við elskum Wade og höfum alltaf gert (nema þegar hann er að fiska, væla og floppa) og þess vegna var það enn sárara að horfa upp á það hvernig hann reyndi hvað eftir annað að búa sér til skot eða keyra á körfuna í fjórða leiknum, en lét í hvert skipti annað hvort verja frá sér eða kastaði grjóti.

Wade segist vera heill núna, öfugt við hvernig hann var á síðustu leiktíð.

Er það, Wade? Ertu viss?

Við vitum alveg að Wade getur átt stórleik strax í kvöld og troðið þessu í andlitið á okkur, en eins og við höfum verið að pípa um að undanförnu, er tími Wade sem stórstjörnu í þessari deild á end runninn.

Öfugt við menn eins og t.d. Paul Pierce og Kobe Bryant, getur Wade ekki breytt leik sínum eins auðveldlega og gert meira af því að fara á blokkina, af því hann er svo stuttur í annan endann blessaður.

Fólk er mikið að spá því að LeBron James eigi eftir að verða hrikalegur í nótt, nú þegar Miami í fyrsta skipti í langan tíma komið með bakið alveg upp að vegg - alveg út í horn.

En við erum ekkert viss um að hann eigi eftir að breyta leik sínum svo mikið. Í 99% tilvika reynir James fyrst og fremst að spila félaga sína uppi og sér svo til.

En við erum líka nokkuð viss um að Miami verði að fá tröllaleik frá honum til að eiga séns á að halda lífi í nótt - og það sem verra er, þarf liðið líklega einnig að fá flottan leik frá Chris Bosh. Og þar versnar nú í því.

Þið vitið að okkur er alveg sama hvort liðið vinnur þetta einvígi, en mikið værum við til í að sjá Miami vinna í kvöld og minnka muninn. Það væri dálítið turn-off ef þetta einvígi sem við erum öll búin að vera að slefa yfir svona lengi, færi bara 4-1 og blástur í nánast hverjum leik.

Bara svo það sé á hreinu, Miami, þá færð þú það óþvegið ef þú spilar svona ástríðulaust þriðja leikinn í röð og lætur drulla yfir þig aftur í kvöld.

Það yrðu gríðarleg vonbrigði.

Það er bara þannig.