Friday, June 6, 2014

San Antonio vann fyrsta leikinn í úrslitunum


Það er ljóst að San Antonio er búið að ná 1-0 forystu á móti Miami í lokaúrslitaeinvíginu í NBA deildinni þetta árið. Þið munið kannski að San Antonio náði líka 1-0 forystu í rimmu liðanna í fyrra. En þar endar samanburðurinn.

Segja má að San Antonio hafi stolið fyrsta leiknum í Miami í fyrra, þar sem Tony Parker skoraði sögulega sigurkörfu í lokin. Í kvöld þurfti engan hetjuskap í lokin, því eftir hnífjafna þrjá leikhluta, fór San Antonio hamförum í fjórða leikhlutanum (36-17) og vann öruggan 110-95 sigur. Það er svo fjandi erfitt að vinna lið sem skjóta 14 af 16 í fjórða leikhluta og 6-6 í þristum. Miami fékk að kynnast því í nótt.

Ef þú heldur áfram að lesa þetta, færðu að vita meira um þennan leik og sjá slatta af myndum frá honum líka. Það væri nú ekki leiðinlegt, ha?

Megnið af skrifunum um þennan leik snúast sjálfssagt um krampann hans LeBron James og þá staðreynd að hann gat ekki hjálpað liðinu sínu á lokamínútunum þess vegna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem James fær krampa í leik, við munum t.d. að hann fékk krampa í úrslitaeinvíginu í hittifyrra, en þá var Miami þegar búið að klára leikinn ef við munum rétt.

Það er stórfurðulegt að þetta skuli koma fyrir svona eintak eins og James. Hann er hálfgerð geimvera auðvitað og því er alltaf jafn undarlegt ef eitthvað gefur sig í vélinni hjá honum. Svona á náttúrulega ekki að geta komið fyrir - og ekki á svona mikilvægu augnabliki. Og gaurinn var bara HAND-ónýtur, ekkert bara að haltra, heldur í gólfinu - hellaður, búinn á því.

Það hlýtur eitthvað að verða eftir af þessu í næsta leik þó hann sé ekki fyrr en á sunnudaginn. Maðurinn á ekki að geta orðið 100% einn, tveir og bingó eftir svona rugl. 

Það væri freistandi að segja að San Antonio hafi lokað þessum leik af því James var utan vallar á síðustu mínútunum og auðvitað getur enginn sagt til um það hvað hefði gerst ef þetta hefði ekki komið fyrir. Hvað sem því líður, spiluðu heimamenn eins og kóngar á lokasprettinum og voru vel að sigrinum komnir.


Við vitum vel að það eru alls ekki allir sammála okkur um það, en okkur fannst varnarleikur liðanna á köflum lélegur í þessum fyrsta leik. Við vitum alveg að sóknarleikur beggja er frábær og illur viðureignar, en okkur er alveg sama.

Þessi sterku varnarlið eiga að geta miklu betur á þeim enda vallarins, þó við ætlum sannarlega ekki að kvarta yfir því að fá fullt af stigum. 

Svo voru allir þessir töpuðu boltar hálf hallærislegir. Svo margir þeirra gjörsamlega upp úr þurru. Ef liðin hefðu ekki spilað svona skemmtilegan sóknarbolta, hefði þessi leikur allt að því verið lélegur.

Það er samt engin hætta á því að við fáum lélegan leik í þessu einvígi, af því þessi lið eru allt of góð til þess. Þessi rimma verður rjómi einn og við getum ekki beðið eftir að sjá framhaldið í skákinni á sunnudaginn.

Flestir lykilmenn beggja liða voru að spila ljómandi vel í þessum leik og það er ekki hægt að horfa framhjá frammistöðu Danny Green á lokasprettinum.

Tim Duncan skilaði 21/10 (9-10 fg) og þarf að halda áfram að refsa Miami nákvæmlega svona út einvígið ef vel á að fara hjá Spurs. 

Svo skilar Parker sínu, skytturnar hitta, Diaw var allsstaðar og síðast en ekki síst, var Manu Manu (GINOBILIIIIII!).

Ef Duncan er Duncan, Parker er Parker, skytturnar hitta og Manu er GINOBILIIIII - þá vinnur San Antonio bara. Undantekningalaust. Alveg. Punktur. Þett´erbúið!

Ef þið haldið svo að við ætlum að sleppa því að minnast á hálfvitaganginn í Tiago Splitter og þetta fáránlega, barnalega, asnalega, andskotans látbragð hjá honum, þekkið þið okkur illa.

Atvinnuíþróttamenn sem haga sér svona inni á vellinum, eiga að vera reknir út úr húsi umsvifalaust og settir í lágmark tveggja leikja bann. 

Það verður að útrýma svona djöfulsins bulli úr leiknum strax og þessar svokölluðu sektir upp á eitthvað klink eru bara asnalegar - hafa ekkert að segja. Útaf með þessa fávita og strax í bann með þá - þá kannski hætta þeir þessu.

Splitter er kominn á svarta listann hjá NBA Ísland og er ekkert á leið af honum næstu árin fyrir þetta glataða og hálfvitalega útspil sitt.

Miami var hreint ekki að spila illa í sóknarleiknum í kvöld, þó varnarleikur liðsins hafi t.d. verið í ruglinu í fjórða leikhlutanum.

Það er engin ástæða fyrir Miami að hengja eitthvað haus yfir þessum úrslitum. Það var óheppilegt að missa James svona út af, en vonandi fyrir meistarana kemst hann á gott verkstæði fyrir helgina og nær að láta laga hjá sér vélina.

Við sem stóðum á öndinni út af meiðslum Tony Parker. Á endanum var það Miami-maður sem meiddist og það er eitthvað sem við eigum ekki að venjast síðustu ár. 

Það er ekki langt síðan að við vorum að tala um hvað Miami væri búið að hafa heppnina með sér undanfarin ár. Vonandi þýðir það ekki að við höfum verið að jinxa meistarana. Það var alls ekki ætlunin.

Þið vitið samt að það hefur gerst nákvæmlega aldrei á síðustu 30 árum að lið sem missti stjörnu eða stjörnur í alvarleg meiðsli í úrslitakeppninni, næði að verða meistari. Það er bara ekki þannig. 

Þess vegna verða lið að hafa (meiðsla) heppnina með sér ef þau eiga að ná árangri. Og liðin sem missa menn í meiðsli - tapa.

En þetta eru auðvitað ekki meiðsli, per se, hjá James núna. Vonandi er þetta bara sprungið dekk sem verður komið í fullkomið lag á sunnudaginn. 

Við viljum öll að þessi stórkostlegu lið spili hverja mínútu sem eftir er í þessu einvígi með alla leikmenn 100% heila.

Hérna eru svo nokkrar myndir frá gleðinni: