Wednesday, June 11, 2014
San Antonio valtaði yfir meistarana
Þetta var meira ruglið! Já, það er ekki hægt að kalla þetta annað en rugl, stuðið sem San Antonio datt í í nótt þegar það rótburstaði Miami 111-92 á heimavelli meistaranna og náði þar með 2-1 forystu í lokaúrslitaeinvígi NBA deildarinnar. Ef einhver var að spá blæstri í þessum leik, hefði hann væntanlega sett peninginn á heimamenn. Það fór hinsvegar enginn heim með bol eftir þetta kaos.
Leikmenn San Antonio mættu grjótharðir og tilbúnir í þennan leik - ekki Miami. Hver í fjandanum ætli sé svo tilbúinn í að fá yfir sig svona skothríð eins og Spurs var að bjóða upp á í nótt? Haldið þið að það sé bara fullkomlega eðlilegt að slá met með því að skjóta 76% og klikka alls á átta skotum í einum hálfleik? Ekki við heldur.
Þetta var fyrsta tap Miami á heimavelli í úrslitakeppninni og það var ekkert meðalmennskutap, heldur karlmannlegt og íturvaxið skít-tap, þökk sé Spurs-vélinni, Svarta-Dauða.
Við bjuggumst við ýmsu í þessu einvígi, öllum fjandanum, satt best að segja. En ekki svona sveiflum. Það er með ólíkindum hvernig þessi lið eru búin að skiptast á því að berja tennurnar úr hvort öðru með skiptilykli og fylla upp í sárin með ákavíti, aromati og ufsalýsi.
Það þýðir ekkert að spila svona vörn ef vinna á titil. Þetta vita allir lykilmenn Miami. Sóknarleikur Spurs verður heldur ekki svona fullkominn aftur, það eru lottólíkur á því. Við höfum faktískt ekki mikið um þennan leik að segja, hann var svo mikið rugl. Það sem er magnaðast við þennan stórsigur Spurs er hvað aukaleikararnir stóðu sig frábærlega.
Ekki gleyma því að Miami gerir bara það sem það þarf að gera. Þess vegna var það dálítið dæmigert fyrir meistarana að drulla á sig í þessum leik, þegar þeir voru nýbúnir að stela heimavallarréttinum.
Á fimmtudagskvöldið kemur svo í ljós hvort Miami lagar þetta eða tapar tveimur leikjum í röð í úrslitakeppni í fyrsta sinn síðan í byrjun júní árið 2012, þegar það tapaði þremur í röð gegn Boston.
Hann Kawhi Leonard var að sjálfssögðu maður leiksins með 29 stigin sín, varnarleikinn og fáránlega skotnýtinguna.
Leonard er aðeins þriðji 22 ára guttinn sem skorar svo mikið í leik í lokaúrslitum síðan þriggja stiga línan var tekin upp í NBA fyrir 35 árum síðan. Margir eru á því að framherjinn ungi eigi eftir að verða stórstjarna í NBA, en við eigum eftir að sjá það. Hann er rosalega góður til síns brúks, en ekkert meira en það. Svona dálítið eins og Andre Iguodala og Shawn Marion.
Nú vinnur Miami fjórða leikinn og þá verður eftirleikurinn óhemju spennandi. Við getum hreinlega ekki beðið.
Efnisflokkar:
Blástur
,
Drullan upp á herðar
,
Heat
,
Kawhi Leonard
,
Lokaúrslit
,
Netbrennur
,
Spurs
,
Úrslitakeppni 2014