Friday, June 20, 2014

Oakland vill Ástþór


Nú er pískrað um að Golden State sé að vinna í því að fá framherjann Kevin Love til sín frá Minnesota. Love hefur sem kunnugt er farið fram á að verða skipt frá Úlfunum, þar sem hann hefur enn ekki náð að komast svo mikið sem einu sinni í úrslitakeppnina á þeim sex árum sem hann hefur spilað þar.

Það er ekkert leyndarmál lengur að Love vilji fara frá Minnesota og sú staðreynd veikir auðvitað samningsstöðu Úlfanna mikið þegar kemur að því að fá eitthvað almennilegt í skiptum fyrir framherjann sterka. Forráðamenn Úlfanna eru nú samt að gera sig eins breiða og þeir geta og sagt er að þeir heimti að fá megnið af yngri og efnilegri leikmönnum Warriors í staðinn ef af þessu á að verða.

Þar er átt við pilta eins og Klay Thompson, Harrison Barnes og Draymond Green, en Kaliforníufélagið vill líka helst losna við framherjann sinn David Lee í þessum skiptum, enda spilar hann sömu stöðu og Ástþór og yrði því allt nema atvinnulaus ef eitthvað gerðist nú í þessu.

Eins og þið vitið kannski, erum við venjulega lítið fyrir það að velta okkur mikið upp úr svona slúðri og leyfum hlutunum oftast að gerast áður en við förum að spá í spilin í kring um hugsanlegar mannabreytingar.

En þegar við heyrðum að Warriors væri að reyna að ná í Kevin Love...

Það fyrsta sem við færum að pípa ef þetta gengi eftir væri að sjálfssögðu eitthvað um það að Love ætti nú svo sem ekki eftir að styrkja Golden State mikið meira í varnarleiknum en David Lee og ekki væri það nú efnilegt og bla bla bla bla.

En skítt með alla hagkvæmni og raunsæi. Það er hægt að spá í það seinna.

Ertu eitthvað að pæla í því hvaða rugl færi í gang hjá Golden State ef Kevin Love bættist við stórskotaliðið sem er þar fyrir? Steph Curry og Kevin Love í vegg og veltu? Ertu eitthvað að grínast?

Curry og Love tóku yfir ellefuhundruð þriggja stiga skot samanlagt á síðustu leiktíð, þó hvorugur þeirra spilaði alla 82 leikina.

Það eru: Ellefu. Hundruð.

Til samanburðar má geta þess að Reggie Miller tók 950 þriggja stiga skot síðustu þrjú árin sín í NBA og ekki hataði hann að láta vaða.

Og hugsið ykkur bara ef Golden State næði á einhvern hátt að halda Klay Thompson líka (sem er reyndar ólíklegt ef díllinn á að ganga í gegn). Kæmu ekki nema svona 500+ þristar í viðbót þaðan.

Þett´er náttúrulega bara lol.

Okkur er til efs að Steve Kerr ætti eftir að banna þessum byssum að beita langskotunum og því mætti alveg eins reikna með enn stærri flugeldasýningu í Oakland en á síðustu tveimur árum - og þá er nú mikið sagt.

Golden State gæti ugglaust orðið fyrsta körfuboltaliðið til að skjóta hreinlega yfir sig!