Tuesday, June 10, 2014

Jafnt hjá San Antonio og Miami


San Antonio er tæknilega með betra lið en Miami, en Flórídaliðið er með LeBron James í sínum röðum. Heimamenn í San Antonio virkuðu betri í öðrum leiknum þangað til James hugsaði með sér að nú væri líklega best að jafna bara einvígið og fara heim með stöðuna 1-1.

San Antonio var búið að vinna átta heimaleiki í röð í úrslitakeppninni og engan þeirra með minna en 15 stiga mun, sem var NBA met.

James skoraði 35 stig, þar af 33 á síðustu 36 mínútunum, þegar Miami lagði San Antonio 98-96 á sunnudaginn og jafnaði metin í einvíginu. LeBron hitti úr 14 af 22 skotum sínum í leiknum, sem er um 64% nýting. Shaquille O´Neal er eini maðurinn í sögu NBA sem hefur skorað svona mörg stig með 64%+ skotnýtingu, en við depluðum ekki auga yfir þessu.

Þetta var ósköp venjulegur leikur hjá James. O.k. kannski aðeins betri en venjulegur, en samt eitthvað svo áreynslulaus. Svona er James búinn að stilla stöngina hátt. Hann á hvern stórleikinn á fætur öðrum, en við tökum varla eftir því.

Eins og svo oft áður byrjar hann á því að leggja á borð fyrir félaga sína og hefur frekar hægt um sig þegar kemur að því að skjóta á körfuna. Hann skoraði aðeins tvö stig í fyrsta leikhluta, þar sem hann skaut 1-4 og gott ef þetta var ekki lægsta samanlagða stigaskor þeirra James og Wade í 1. leikhluta síðan sá fyrrnefndi gekk í raðir Miami.

Frá og með öðrum leikhluta - og sérstaklega í þeim þriðja - hitti James úr 11 af næstu 13 skotum sínum, aðallega af því hann réðist á körfuna við hvert einasta tækifæri sem gafst. Þið eruð öll búin að átta ykkur á því hvað gerist þegar James er í árásarham í kring um körfuna og eins og til að bæta gráu ofan á svart fyrir Spurs, var hann sjóðandi heitur fyrir utan líka eftir því sem leið á leikinn.

Þú getur voðalega lítið gert að því, af því það er illa séð að nota handsprengjur og/eða Volvo Laplander á körfuboltavöllum. Þetta eru í fljótu bragði einu verkfærin sem okkur dettur í hug að gætu stjakað LeBron James út af sporinu þegar hann er í þessum ham.

Og á hinum enda vallarins sá James oft um að gæta Tony Parker, sem er verkefni sem fáir ráða við. Þessi skák Miami-manna gekk vel upp og hæðin og lengdin á James truflaði Parker mikið. Það mætti halda að LeBron James væri góður í körfubolta.

San Antonio líður best varnarlega þegar það getur haft bæði Tim Duncan og Tiago Splitter inná í einu, en minniboltatilburðir Miami og ógn fyrir utan gera það að verkum að það er ekki alltaf hægt.

Rétt eins og í fyrra, hefur þessi barátta mikið að segja um niðurstöðuna í einvíginu. Það vakti athygli okkar hvað veðbankar virkuðu ákveðnir í því að San Antonio ætti eftir að vinna þetta einvígi áður en það hófst.

  • Skipti heimavöllurinn þá svona miklu máli? 
  • Var San Antonio búið að spila svona vel? 
  • Eða var Miami svona lélegt? 

Ekki gott að segja.

En það sem við vitum, er að Miami er búið að spila 46 leiki í röð í úrslitakeppni án þess að tapa tveimur leikjum í röð. Það segir sína sögu um styrk og velgengni Miami. Líka skondið að þetta er í þriðja skiptið í röð sem Miami tapar opnunarleiknum í lokaúrslitunum.

Þessi rimma verður rosaleg.