Friday, June 6, 2014
Handahófskenndir molar úr sögu NBA
Litháinn skemmtilegi Šarūnas Marčiulionis verður fimmtugur þann 13. júní næstkomandi. Hann var stundum kallaður Rooney, sem er stórkostlegt. Hann kom ekki inn í NBA deildina fyrr en 25 ára gamall og lék megnið af ferlinum hjá Don Nelson og félögum í Warriors. Hann átti best 19 stig í leik. Skaut yfir 50% á ferlinum og 37% fyrir utan. Svalur skorari og einn besti evrópski leikmaður sinnar kynslóðar.
Talandi um kynslóðir. Walt "Clyde" Frazier er svægasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar og tvímælalaust einn besti bakvörður sinnar kynslóðar. Flestir þekkja hann í dag sem aðstoðarlýsanda á Knicks-leikjum, en fáir stóðust honum snúning þegar hann var upp á sitt besta fyrir 40 árum.
Allir sem á annað borð fylgjast með NBA hafa heyrt minnst á hetjuleik Willis Reed í oddaleiknum við Lakers um titilinn árið 1970, þegar hann haltraði inn á völlinn og gaf félögum sínum í Knicks um leið hvatningu til að klára einvígið. Fínt hjá honum, en það var Clyde sem kláraði leikinn með því að bjóða upp á 36 stig, 7 fráköst og 19 stoðsendingar og tryggði Knicks fyrsta titilinn í sögu félagsins.
Hversu svægur er Clyde? Gefum okkur að hann myndi reykja vindil, drepa í honum í öskubakka og fylla upp í bakkann með því að pissa í hann - væri niðurstaðan svalari en næst svalasti maður í sögu NBA. Hann er það svalur. Þú verður líka að vera svalur til að leika í skóauglýsingu með fjallaljóni. Það segir sig sjálft.
Talandi um svala menn. Charles Barkley er líka svalur, en á allt annan hátt. Barkley er eiginlega bara snillingur, einn sá allra skemmtilegasti í sögu NBA. Þetta vita bæði eldri og yngri lærisveinar í sportinu. Sjáðu til dæmis hvað þessi húfa hans er dásamlega laus við pólitískan rétttrúnað. Hversu geðbilað yrði allt ef LeBron James myndi gefa út viðlíka yfirlýsingu í dag? Hann yrði um það bil tekinn af lífi, drengurinn.
Talandi um líf. Lífið var enginn dans á rósum hjá honum Dennis Rodman á tíunda áratugnum og er það ekki enn. Á árunum inn á milli þess sem hann var að vinna titla með Detroit Pistons (1989-90) og Chicago Bulls (1996-98), var hann á mála hjá San Antonio Spurs.
Það tók hann tvö ár að gera forráðamenn Spurs geðveika, en það var einmitt árin 1994-95 - árin sem grannar Spurs í Houston unnu meistaratitlana sína tvo. Rodman var sem sagt við hliðina á David Robinson þegar Hakeem Olajuwon var að niðurlægja hann í úrslitakeppninni forðum. Þeir Rodman og Robinson mynduðu ógurlegt varnar- og frákasta tvíeyki, en þó vel hafi gengið í deildinni, lét árangurinn á sér sitja í úrslitakeppninni.
Talandi um keppni, þá muna margir eftir því þegar Glen Rice vann þriggja stiga skotkeppnina um Stjörnuleikshelgina árið 1995 og var svo kjörinn maður leiksins í Stjörnuleiknum tveimur árum síðar, þegar hann snögghitnaði í þriðja leikhlutanum og setti met með því að skora í honum 20 stig. Rice var ákaflega skemmtilegur leikmaður og verður alltaf minnst sem einnar bestu skyttu sem spilað hefur í NBA. Vá, sá hefði notið sín á græna ljósinu í spilamennsku dagsins í dag, þar sem allt gengur út á langskotin.
Talandi um skyttur, þá var Alex English ein af þeim betri sem sést hafa af styttra og millifærinu svokallaða. English gat bara ekki annað en skorað og kannski má segja að hann hafi verið Carmelo Anthony síns tíma, nema hvað hann var með miklu betri skotnýtingu. English lék með Denver í ellefu af sextán árum sínum í NBA og var með um 26 stig að meðaltali í leik á ferlinum með Nuggets. Einn besti skorari í sögu deildarinnar, en afrekaði fátt í úrslitakeppninni eins og verða vill með léttari framherja sem skora mikið.
Talandi um að skora mikið. Enginn skoraði auðvitað meira en Wilt Chamberlain á sínum tíma, en honum var margt fleira til lista lagt en að skora á vellinum og í rúminu. Eins og við höfum áður skrifað um hér á þessu vefsvæði, var Wilt einn mesti íþróttakappi sinnar kynslóðar og var eiginlega góður í öllu sporttengdu sem hann tók sér fyrir hendur. Þannig reyndu áhrifamenn í blakíþróttinni mikið að fá hann til að skipta um sport og staðreyndin var raunar sú að þessi litríki íþróttamaður spilaði talsvert blak eftir að hann hætti í körfunni.
Og talandi um litríka hluti. Scottie Pippen er einn af þeim leikmönnum sem voru svo óheppnir að vera í blóma lífsins sem NBA leikmenn á hinum alræmda tíunda áratug, þegar fólk kepptist við að reyna að drepa hvort annað með klæðaburðinum einum saman. Eins og við sjáum á þessari skemmtilegu hversdagsmynd hérna fyrir neðan, lét Pippen sitt ekki eftir liggja í þessari skelfilegu iðju. Hér er hann í buxum sem eru bein ógn við þjóðaröryggi.
Efnisflokkar:
Alex English
,
Charles Barkley
,
Dennis Rodman
,
Fret úr fortíðinni
,
Glen Rice
,
Klassík
,
NBA 101
,
Orðræður
,
Scottie Pippen
,
Sögubækur
,
Walt Frazier
,
Wilt Chamberlain