Oklahoma var með bakið upp við vegg, það vantaði ekki. En eftir allar þessar framlengingar reiknaði enginn með svona leik. Að Oklahoma færi til Memphis og einfaldlega drullaði yfir heimamenn.
Auðvitað fór Memphis inn í þennan leik, vitandi það að það yrði að loka þessu í nótt. Auðvitað vissu heimamenn að þeir þyrftu að vinna oddaleik á útivelli ef þeir töpuðu þessu. Og þeir vita að útisigrar í oddaleikjum eru álíka algengir og grænir hrafnar.
Jæja, eins og þið sáuð, var bara annað liðið tilbúið í þennan leik. Það var Oklahoma. Og Oklahoma spilaði ekki sekúndu í örvæntingu, per se. Liðið kom bara inn í þennan leik eins og það kom inn í alla leiki í vetur - vitandi að það væri betra - og lokaði.
Þetta er dásamlega fljótt að breytast og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, ef hann er að finna í Oklahoma.
Spennustigið hjá Oklahoma-strákunum verður örugglega hærra á laugardaginn, en nú reikna auðvitað allir með því að þeir klári þetta á heimavelli. Ekki síst í ljósi þess að aumingja Mike Conley virðist hafa tognað á læri og þið vitið að hann er ekkert að fara að jafna sig af því á tveimur dögum. Þetta verður hrikalega erfitt hjá Memphis.
En það er einmitt þannig sem þeir vilja hafa það, þessi ólíkindatól öll sömul. Þeim líður best í harkinu og drullunni og það verður nóg af því á laugardaginn.
Það sem stendur upp úr eftir leik sex er samt karakterinn í Durant, Russ og Oklahomaliðinu öllu. Þú þarft að vera með pung til að koma svona á sterkan útivöll og valta yfir mótherjann. Svona er sjaldgæft. Það sem þeir KD og Russ voru flottir í þessum leik. Rosalegir!
Hvernig ætli hægðaheilanum á bak við forsíðuna hérna fyrir ofan líði núna?
Bókað að hann segist núna aðeins hafa gert þetta til að mótívera Kevin Durant. Það er helvítis lygi, en þessum asna skjátlaðist ef hann hélt að þetta bull ætti eftir að hjálpa Durant eitthvað. Þetta olli í besta falli pirringi í herbúðum liðsins.
Hugsið ykkur líka hvað þessi hérna til hliðar var hrottalega nálægt því að missa vinnuna í kvöld. Reyndar var sigur Oklahoma aldrei í hættu, en ef liðið hefði ekki hitt á svona frammistöðu og tapað, væri hann að skoða smáauglýsingarnar núna.
Oklahoma er meistarakandidat og á ekki að falla út í fyrstu umferð - alveg sama hver mótherjinn er. Við erum reyndar búin að segja ykkur það oft áður að þó Scott Brooks karlinn sé vissulega búinn að gera fína hluti með Oklahoma, erum við óskaplega hrædd um að sóknarleikurinn sem hann er að bjóða upp á muni aldrei nægja til að vinna meistaratitil.
Það er svakalega þægilegt að vera með menn eins og KD og Russ í liðinu sínu, en sóknarleikur þess er stundum bara vandræðalegur. Við höfum á tilfinningunni að ef að maður eins og Rick Carlisle væri að þjálfa Oklahoma, væru fá lið sem stæðu því snúning. Kannski væri það bara langbesta liðið í deildinni. Það kemur ekki í ljós fyrr en nýr þjálfari tekur við. Það er alls ekki sama hver tekur við af Brooks þegar hann kveður.
Ykkur að segja, erum við óhemju fegin að Oklahoma féll ekki úr leik. Þið vitið að við elskum Russ, en þess utan er náttúrulega ekki hægt að meistarakandítadar séu hrynjandi úr keppni í fyrstu umferð eins og leit út fyrir á kafla hjá bæði t.d. Oklahoma og San Antonio.
Að okkar mati eru bara þrjú lið í deildinni sem hafa fulla burði til að vinna meistaratitil. Miami er búið að vinna þetta tvisvar í röð, San Antonio kann þetta allt saman og var í úrslitum í fyrra og Oklahoma var í úrslitum árið þar á undan og er ekki mikið lakara núna (Harden).
Svo er að sjá hvað liðin á jaðrinum eins og LA Clippers segja við því. Við sjáum bara ekki alveg að þessi lið eins og Portland, Houston, Golden State, Memphis og Indiana séu nægilega sterk til að komast lengra en í undanúrslit.
Ef annað kemur í ljós, er það ekkert nema jákvætt. Við erum ekkert að loka á það.
Það er bara þannig, eins og þið vitið, að við viljum alltaf að bestu liðin í NBA haldi sínu. Okkur fannst gott að Miami næði að verja titilinn í fyrra af því að þá sannaði það að titillinn á verkbannsárinu var engin tilviljun.
Það er alltaf dálítið erfitt að díla við nýja meistara, sérstaklega ef þeir eru bara svona "ein dolla og búið" eins og Dallas 2011.
Þetta Dallas-lið var vissulega mjög sterkt, en það vann titilinn að hluta til með því að detta í stuð á réttum tíma. Nokkuð sem kemur sjaldan fyrir. Meistararnir vinna venjulega titilinn af því þeir eru einfaldlega með besta liðið.