Wednesday, May 14, 2014

Meistararnir eru ekkert rosalega sannfærandi:


Vissirðu að Dwyane Wade er ekki lengur næstbesti leikmaður Miami Heat?

Við föttuðum þetta allt í einu þegar við fórum að hugsa um hvað Miami (mínus LeBron James) er að spila illa. Þegar við sjáum meistarana láta miðlungslið Nets löðrunga sig aftur og aftur. Ef ekki væri fyrir ofurmannlega frammistöðu LeBron James í gærkvöldi, væri staðan í þessu einvígi 2-2.

Næstbesti leikmaður Miami átti ekkert sérstakan leik í gær, en hann skoraði nú samt þristinn sem ísaði þetta í lokinn. Við erum auðvitað að tala um Chris Bosh.

Bosh þessi hefur ekki alltaf verið hátt skrifaður hjá okkur og verður það ekki héðan af, en hann er óhemju mikilvægur Miami á báðum endum vallarins og þegar við förum að pæla í því, er langt síðan hann tók stöðu Dwyane Wade sem næstbesti leikmaður liðsins.

Manstu þegar Dwyane Wade var einn af fimm bestu leikmönnum NBA deildarinnar í nokkur ár? Við munum eftir því. Og það er ekki síst þegar við rifjum það upp, sem við áttum okkur á því hvað Wade hefur gjörsamlega hrunið sem leikmaður. Ekki kannski eins og Kevin Garnett, en ekki langt frá því.

Og í framhaldi af þessari pælingu - er eðlilegt að fólk hugsi: Er þetta Miami-lið þá einhver meistarakandídat? Með svona spilamennsku? Og það sem meira er - verður þetta lið þá einhver meistarakandídat á næsta ári og árunum eftir það?

Wade er alltaf lengur og lengur á felgunni og þeir varamenn og aukaleikarar sem Spoelstra treystir á í þessu liði eru bara að verða of gamlir.

Okkur grunar að Pat Riley sé með eitthvað í pípunum á næstu 18 mánuðum.

Og vitið þið hvað? Það verður að vera eitthvað mjög gott.