Thursday, May 15, 2014

Indiana heldur áfram að spila lélegan körfubolta


Það er ekki þannig að okkur langi beinlínis að skrifa eitthvað um Indiana Pacers, en við getum bara ekki hamið okkur eftir fimmta leik liðsins gegn Washington í fyrrakvöld. Leikmenn Indiana höfðu á einhvern óskiljanlegan hátt náð að snúa einvíginu sér í hag eftir að hafa drullað á sig heima í fyrsta leiknum. Þeir náðu að vinna næstu þrjá leiki og setja einvígið í "þett´er búið"-status.

En bíddu við...  ekki alveg.

Eins og þið vitið örugglega flest, skeit Indiana svo hrottalega á sig í fyrrakvöld að menn þurfa að leita djúpt í annála til að finna annað eins hrun hjá einu liði - sérstaklega þegar kemur að fráköstunum. Washington - liðið á útivelli - vann frákastabaráttuna 62-23! Þetta er einhver mesti munur sem sést hefur síðan mælingar á þvíumlíku hófust.

Við skulum ekki taka neitt af Washington-mönnum, þeir stóðu sig ljómandi vel undir forystu pólska Hamarsins Marcin Gortat (31/16) og hafa ótrúlegt en satt unnið fimm af sex útileikjum sínum í úrslitakeppninni en eru aðeins 1-3 á heimavelli.

Wiz hafði fyrir einvígið tapað tólf leikjum í röð í Indiana, en líður núna ljómandi vel þar. Ef svo fer sem horfir, gæti það meira að segja fengið að kíkja þangað í oddaleik um helgina.

Jón og séra Jón, Pétur og Páll, skrattinn og amma hans eru öll búin að skrifa um vandræðaganginn á Indiana í vor, en fæstir færa almennileg rök fyrir því hvernig stendur á þessu hruni.

Sumir segja að það sé af því Paul George tók þá kjarneðlisfræðilegu ákvörðun að senda myndir af æxlunarfærunum á sér á internetið, sumir segja að þetta snerti móral í kring um framhjáhald, sumir segja að þetta sé út af eigingirni og frekju með skot og spilatíma, sumir segja að þetta sé út af Andrew Bynum og/eða Gunnari Birgissyni (Evan Turner) og enn aðrir af því þeir eru orðnir svo þreyttir á þvi að fólk haldi að Michael Rapaport sé hæfur leikari.*

Við nennum sko ekki að velta okkur upp úr því hvur fjandinn er að valda vandræðum Indiana, en ljóst er að það er eitthvað meiriháttar að og það verður ekki lagað í miðri úrslitakeppni - okkur er alveg sama hvað hver segir.

Andinn, baráttan, einingin og varnarleikurinn sem einkenndu þetta lið eru allt nema fokin út í veður og vind og eftir stendur risastór og mengaður drullupollur.

Það er ómögulegt að segja hvað gerist í 1-2 síðustu leikjunum í einvígi Indiana og Washington, en okkur er til efs að liðið sem stendur í lappirnar eftir það slöggfest eigi eftir að hanga lengi í Miami - jafnvel þó Miami sé sjálft í basli og langt frá sínu besta þessa dagana.

Þessi historíska skita hjá Indiana fékk okkur til að spóla til baka og reyna að muna eftir fleiri liðum sem voru með allt niður um sig.

Okkur dettur einna helst í hug meistaralið Miami frá árinu 2006-07, sem árið eftir að vinna titilinn skeit gjörsamlega upp á bak og lét Chicago Bulls sópa sér úr keppni í fyrstu umferðinni.

Það var skammarleg frammistaða hún hefur sennilega verið verri en niðurgangurinn sem Brooklyn bauð upp á í úrslitakeppninni í fyrra.

En þessi frammistaða Indiana núna, er alveg sér á parti. Við höfum aldrei séð annað eins og vonum að við eigum ekki eftir að sjá það aftur. Og því miður fyrir aumingja Larry Bird, þarf hann líklega að gera fullt af breytingum á liðinu sínu í sumar. Liðinu sem hann hélt að væri að smella svona skemmtilega saman hjá honum. Aumingja Larry.