Thursday, May 1, 2014

Er Oklahoma City á leið í sumarfrí?


Það er óhemju mikið í húfi í kvöld þegar Oklahoma sækir Memphis heim í sjötta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Vesturdeildarinnar í NBA.

Oklahoma City er eitt af liðunum sem flestir reiknuðu með að ættu eftir að berjast um meistaratitilinn í vor, nú þegar lykilmenn liðsins (Russell Westbrook) hafa náð heilsu á ný. Því miður fyrir þetta skemmtilega lið, byrjar sóknin að titlinum á einvígi við Memphis Grizzlies.

Það er þreytt tugga að tala um að lið sem hafnar t.d. í 7. eða 8. sæti og fer í úrslitakeppni sé "miklu sterkara en sætið segir til um." En þó það hljómi klisjulega, er Memphis slíkt lið.

Memphis myndi til dæmis valta yfir öll lið í úrslitakeppni Austurdeildarinnar nema Miami.

Já, valta yfir þau.

Eina ástæðan fyrir því að Memphis hafnaði í 7. sæti Vesturdeildarinnar en ekki ofar, er að miðherjinn Marc Gasol missti af mörgum leikjum í vetur vegna meiðsla. Hann er hjartað í þessu liði og ef hans hefði notið við, hefði Memphis haft alla burði til að ná heimavallarrétti í fyrstu umferð.

Memphis er líka lið sem er byggt til að spila í úrslitakeppni. Þetta er sterkt varnarlið sem spilar hægt og klípur, krafsar og klórar sig til sigurs. Spurðu bara strákana í Oklahoma.


Strákana í Oklahoma, já.

Ekki halda að við séum að halda þessa lofræðu um Memphis til þess að taka upp hanskann fyrir Oklahoma. Það er ekki ætlunin. Oklahoma er skipað mannskap sem á að geta séð um sig sjálfur þó flestir lykilmenn liðsins séu enn tiltölulega ungir. Oklahoma á ekki að vera undir 3-2 í fyrstu umferð, á leiðinni á einn brjálaðasta heimavöll deildarinnar með það fyrir augum að enda í sumarfríi ef það tapar.

Það er löngu búið að ákveða að Kevin Durant verði útnefndur Verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í vetur. Hann mun taka við þeim verðlaunum á næstu dögum, það er 99,9% öruggt.

Ef hann tapar í kvöld, verður hann einn af örfáum MVP-höfum í sögunni sem þurfa að upplifa þá skömm að tapa í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Aumingja Dirk Nowitzki lenti í þessu síðast þegar hann árið 2007 mátti sætta sig við að falla úr leik í fyrstu umferð með Dallas gegn Golden State og þurfa svo að taka við styttunni nokkrum dögum síðar.

Það er erfitt að hugsa sér öllu neyðarlegri blaðamannafund og við gleymum aldrei svipnum á aumingja Dirk Nowitzki forðum. Úff.

Já, það er SVONA mikið undir í nótt þegar Oklahoma mætir til Memphis. Sögubækurnar eru opnar og fjölmiðlar bíða spenntir eftir að hengja upp fyrirsagnirnar.

Ástæðurnar fyrir því að Oklahoma er komið ofan í þessa drulluholu eru Tony Allen margþættar en það verður nægur tími til að velta sér upp úr þeim ef allt fer á versta veg. Við skulum ekki sparka Oklahoma ofan í gröfina strax.

Það eina sem við skulum gera er að horfa á þennan leik á miðnætti í kvöld (Stöð 2 Sport) og alla þá leiki sem við náum að sjá, því þessi fyrsta umferð úrslitakeppni NBA boltans í ár hefur verið einhver sú besta í sögunni. Það eru engar ýkjur.

Góða skemmtun.