Friday, November 15, 2013
Ungu mennirnir stóðu upp úr í sigri KR á Njarðvík
Einhverjir urðu fyrir vonbrigðum með leik KR og Njarðvíkur í DHL höllinni í gærkvöldi og það er svo sem engin furða, 96-72 stórsigur KR var aldrei í nokkurri hættu.
Það var ekki að sjá að þessi lið væru á svipuðum slóðum í deildinni. Þetta var bara ekki dagur þeirra grænu, meðan allt gekk upp hjá heimamönnum. Flestum finnst leiðinlegt að horfa á blástra í körfubolta, en við skemmtum okkur konunglega. Við vorum að fylgjast með frammistöðu einstaka leikmanna í þetta sinn, ekki liðanna - per se.
Og þar fengum við vel fyrir peninginn. Pavel Ermolinski - sem okkur leiðist nú ekki að horfa á spila körfubolta - var samur við sig og bauð upp á 16/16/7 hjá KR.
Það var svo einvígi ungu strákanna sem var áherslupunktur kvöldsins og mikið hrikalega var það skemmtilegt, óháð stöðunni í leiknum.
Þeir Martin Hermannson og Elvar Friðriksson eru löngu búnir að sýna að þeir eru mættir sem leikmenn í þessari deild, en ef einhver vafi var að sniglast innra með okkur um ágæti þessara frábæru bakvarða, gufaði hann endanlega upp í gær. Þvílíkir skemmtikraftar sem þeir eru báðir tveir.
Það er fullt af leikmönnum í deildinni okkar sem spila vel af og til, en þeir Elvar og Martin eru komnir á þann stað að þeir eru farnir að taka yfir leiki á löngum köflum. Þannig veistu að menn eru mættir - orðnir svona fullorðins.
Sérstaklega á þetta við um Elvar, sem spilaði bara eins og Kani í liði Njarðvíkur í gær. Bandaríkjamaðurinn Nigel Moore í liði Njarðvíkur er kannski ágætisleikmaður, en hann var gjörsamlega ósýnilegur í þessum leik.
Eini maðurinn sem gat eitthvað hjá Njarðvíkurliðinu í sóknarleiknum var Elvar Már og hann gerði bara það sem honum sýndist.
Það er ekki skrítið að pilturinn sé að skoða sig um í New York, hann er að verða of stór fyrir þessa deild.
Sömu sögu er að segja af Martin Hermannssyni. Hann fór hægt af stað í haust vegna meiðsla, en í undanförnum leikjum hefur hann verið óstöðvandi.
Það sem er svo sérstaklega flott við þessa stráka er tölfræðin þeirra. Báðir eru þeir að spila félaga sína uppi og skora helling af stigum, en skotnýting þeirra er framúrskarandi. Það er ekki eins og þeir séu bara eitthvað að drita skotum í allar áttir, þetta eru bara alvöru menn. Fullorðins.
Efnisflokkar:
All growed up
,
Elvar Már Friðriksson
,
Heimabrugg
,
KR
,
Martin Hermannsson
,
Njarðvík
,
Þetta er ungt og leikur sér