Wednesday, July 24, 2013
Karl Malone er fimmtugur í dag
"Geturðu hringt aftur eftir þrjá tíma? Ég er að fara á æfingu."
Hann er kannski aðeins mýkri að sjá í dag, en þeir segja að Karl Malone vegi enn 256 pund eins og þegar hann spilaði í NBA deildinni.
Svarið hér að ofan fékk blaðamaður sem ætlaði að taka viðtal við hann fyrir nokkrum dögum, en Malone tók nýverið við þjálfarastöðu hjá gamla félaginu sínu Jazz.
Hann er fæddur í Summerfield í Louisiana þann 24. júlí árið 1963 - og er því fimmtugur í dag.
Karl Malone var maðurinn sem setti kraftinn í kraftframherja-stöðuna. Flestir af 50 bestu körfuboltamönnum sögunnar fengu stóran hluta hæfileika sinna í vöggugjöf.
Malone var ekki einn þeirra.
Hann vann fyrir öllu sem hann afrekaði á ferlinum. Hann var ekki með stökkskot þegar hann kom inn í deildina og hitti ekki úr helmingi vítaskota sinna.
Tuttugu árum síðar var hann næst stigahæsti leikmaður sögunnar, tvöfaldur verðmætasti leikmaður deildarinnar og ellefu sinnum í 1. úrvalsliði NBA. Hann missti úr tíu leiki á átján ára ferli sínum með Utah Jazz, flesta vegna leikbanns.
Í dag er langsótt að leikmaður skori 25 stig og hirði 10 fráköst að meðaltali í leik heilan vetur. Malone var með 25/10 meðaltal á nítján ára ferli. Hugsaðu um það í smá stund.
Næsta orð á eftir Breivik er: "geðsjúklingur."
Næstu orð á eftir Karl Malone eru: "vann ekki titil."
Í deildarleik upp úr árinu 2000 var hann að taka vítaskot þegar ólátabelgur fyrir aftan körfuna byrjaði að hrópa glósur í átt til hans og vekja athygli á því að hann hefði nú ekki unnið helvítis titilinn.
"I work hard," ansaði Malone og laug engu.
Er þetta ekki lífið í hnotskurn?
Til hamingju með daginn, Karl.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Goðsagnir
,
Heiðurshöllin
,
Karl Malone