Friday, June 7, 2013
Tveir áratugir frá andláti Dražen Petrović
Í dag eru tuttugu ár síðan króatíska stórskyttan Dražen Petrović lést í bílslysi í Þýskalandi.
Petrović var aðeins 28 ára gamall og var á hátindi ferilsins þegar hann lést. Hann var á keppnisferðalagi með landsliðinu þegar hann lenti í þessu örlagaríka slysi, en hann hafði þá ákveðið að taka bíl með unnustu sinni í stað þess að fara með flugi eins og liðsfélagar hans.
Flestir muna eftir Petrović fara á kostum með New Jersey Nets og króatíska landsliðinu og er hann almennt álitinn einn besti körfuboltamaður Evrópu fyrr og síðar.
Skemmst er að minnast frammistöðu hans með landsliðinu sínu gegn Draumaliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, þar sem hann skaut króatíska liðið inn í tapaðan leik með skotsýningu.
Petrović fékk fá tækifæri í NBA deildinni með fyrsta liðinu sínu Portland, en sló fljótlega í gegn með ungu liði Nets þar sem hann lék með mönnum eins og Kenny Anderson og Derrick Coleman.
Petrović var vígður inn í Heiðurshöll Naismith ári 2002 og það er algjör synd að ferli hans hafi lokið með þessum hætti.
Síðustu tvö árin með Nets var hann að skora yfir 20 stig að meðaltali í leik, skjóta yfir 50% utan af velli og um 45% í þristum.
Það er ekki laust við að við fáum hroll við að hugsa til þess hvað byssa eins og Petro hefði gert í nútíma NBA, þar sem þriggja stiga skotin eru helmingi stærri þáttur af leiknum. Okkar maður hefði nær örugglega blómstrað undir þeim kringumstæðum. Hvað haldið þið að Petro hefði skorað mikið ef hann hefði t.d. spilað með Golden State í vetur?
Þeir sem vilja kynnast þessum elskaða og dáða íþróttamanni er bent á að horfa á ESPN-heimildamyndina Once Brothers, sem fjallar um Petrović, Vlade Divac, feril þeirra og borgarastyrjöldina í fyrrum Júgóslavíu. Mögnuð mynd í alla staði.
Efnisflokkar:
Dražen Petrović
,
Heiðurshöllin
,
Klassík
,
NBA 101
,
Skyttur