Monday, June 3, 2013

Tim Duncan: Alltaf í fremstu röð


Tim Duncan og félagar hans í San Antonio eru eflaust mjög eirðarlausir núna. Þeir eiga enn eftir að vera fjóra daga í fríi áður en lokaúrslitin hefjast. Það er því óhjákvæmilegt að Spurs verði dálítið ryðgað í fyrsta leiknum í finals á fimmtudaginn.

En ef þú spyrð okkur, teljum við að af tvennu illu sé það miklu skárra fyrir San Antonio að fá of mikla hvíld en of litla. Þeir eru engin unglömb lengur þessir karlar hjá Spurs. Talandi um unglömb. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvað Tim Duncan reis upp frá dauðum í vetur og átti sitt besta tímabil í nokkur ár.

Það segir dálítið um samkeppnina sem ríkir hjá stóru mönnunum í NBA að Tim Duncan skuli vera í fyrsta úrvalsliði NBA deildarinnar 37 ára gamall. Með fullri virðingu fyrir Duncan, er það glatað að yngri menn skuli ekki taka þetta sæti.

Við megum samt ekki drulla alveg yfir þetta, því Duncan átti sæti sitt í úrvalsliðinu fullkomlega skilið. Ekki bara vegna þess hvað hann skilaði flottum tölum og spilaði góða vörn, heldur líka af því að San Antonio er alltaf - alltaf - við toppinn í NBA í deildakeppninni.

Stöðugleiki San Antonio hefur verið vélrænn síðan Duncan kom inn í deildina veturinn 1997-98. Spurs er búið að vinna um 70% leikja sinna í deildakeppninni og er nú á leið í lokaúrslitin í fimmta sinn eftir að hafa klárað öll fjögur úrslitaeinvígin sín.

Duncan hefur verið fastagestur í úrvalsliðinu og varnarúrvalinu síðan hann kom inn í deildina og var kjörinn nýliði ársins 1998. Hann var fyrsti nýliðinn síðan Larry Bird (1980) sem valinn var í úrvalsliðið og aðeins sá níundi í sögunni. Duncan leiddi deildina í tvöföldum tvennum (57), var valinn í Stjörnuleikinn og varð fimmti í valinu á verðmætasta leikmanni ársins. Margir góðir leikmenn hafa hlotið titilinn nýliði ársins á eftir Duncan, en enginn þeirra átti jafn gott ár og hann.

Þið áttið ykkur kannski betur á því hvað Duncan er búinn að vera lengi í efsta gæðaflokki þegar við sýnum ykkur hverjir voru með honum í úrvalsliði NBA árið 1998. Þar ber auðvitað hæst sjálfur Michael Jordan, sem þá var á síðasta tímabilinu sínu með Chicago Bulls.