Sunday, May 19, 2013

Nokkrir molar um undanúrslitin


Jæja krakkar, þar höfum við það. Nú eru aðeins fjögur lið á lífi í úrslitakeppninni.

Þetta er búið að taka fljótt af, aðeins eitt einvígi hefur farið alla leið til þessa - rimma Nets og Bulls.

Það verða San Antonio og Memphis sem slást um Vesturdeildina og Miami og Indiana sem berjast í austrinu. Þetta varð ljóst í nótt þegar Indiana kláraði verkefni sitt gegn Knicks.

New York náði aldrei að spila sinn bolta á móti Pacers. Að hluta til af því það er erfitt að spila deildakeppnibolta í úrslitakeppninni - að hluta til af því Indiana leyfði New York aldrei að spila sinn bolta.

Það er ekkert grín að spila við þetta Indiana lið. Það hefur einstök tök á því að taka þig út úr öllum þínum aðgerðum, svo við tölum eins og Hubie Brown.

Það er nákvæmlega engin tilviljun að þrjú af liðunum fjórum sem komin eru í undanúrslitin eru úrvals varnarlið. Miami, Indiana og Memphis eru þrjú af bestu varnarliðum deildarinnar og San Antonio er reyndar komið eins langt og raun ber vitni af því varnarleikur liðsins er betri en í fyrra og miklu betri en árið þar áður.

Indiana er lið sem vinnur alla sína leiki út á varnarleik og Memphis sömuleiðis meiripartinn af sínum, þó ekki með jafn afgerandi hætti og Indiana.

Miami á það líka vissulega til að vinna leiki í varnarleiknum einum saman, en Miami er þar að auki með fullt af góðum skyttum, Dwyane Wade og besta körfuboltamann í heimi.

Það er ástæða fyrir því að Miami er besta lið í heimi. Nú á það bara eftir að sanna það aftur.

Þessi úrslitakeppni er eiginlega búin að vera stórfurðuleg fyrir meistara Miami. Liðið byrjaði á því að sópa liði sem hafði ekkert erindi í úrslitakeppni út í fyrstu umferð og þurfti svo að hvíla í viku áður en það hóf glímuna við Chicago. Þessi hvíld setti dálítið ryð í leikmenn og kostaði tap í fyrsta leik gegn krambúleruðu Chicago liði. Restin var einföld en ekki auðveld.

Nú er Miami - með fullri virðingu fyrir Chicago - loksins að lenda í alvöru einvígi í úrslitakeppninni, en ljóst er að meistararnir fara inn í það eftir aðra vikuhvíld og þurfa því að gæta þess að vera betur á tánum en þeir voru gegn Bulls. Það verður ekkert auðvelt að taka á móti Indiana, sem er með sjálfstraustið í botni og kæfandi varnarleik.

Margir muna eftir einvígi Miami og Indiana í fyrra, en með smá heppni hefði Indiana þar geta komið Miami í bullandi, bullandi vandræði. Í stað þess að hamra járnið meðan það var heitt og traðka á Miami meðan það var í vandræðum, gáfu reynslulitlir leikmenn Pacers eftir og hleyptu Miami aftur inn í einvígið.

"Hleypt þeim inn í einvígið" er kannski ekki rétta orðalagið. LeBron James og Dwyane Wade settu í Guðagírinn og Miami fann sinn rétta og endanlega takt eftir að Chris Bosh meiddist. Við vitum svo öll hvernig það endaði.

Það er engin ástæða til að ætla að rimma Miami og Indiana fari öðruvísi í ár en í fyrra. Indiana er árinu eldra og sterkara, sérstaklega í vörninni, en Miami er líka miklu betra og það er stórslys ef meistararnir klára þetta ekki nokkuð örugglega. Það er talsverð 4-2 lykt af þessu einvígi, án þess að við ætlum að spá fyrir um það sérstaklega.

Einvígið í vestrinu er líka hrikalega áhugavert. Þar mætast tvo ógnarsterk lið sem þekkjast ansi vel. Síðast þegar San Antonio og Memphis áttust við árið 2011, gerðu Húnarnir sér lítið fyrir og slóu Spurs út í fyrstu umferð þegar San Antonio kom inn í úrslitakeppnina í 1. sæti en Memphis í því áttunda.

Þetta voru söguleg úrslit á margan hátt. Memphis var ekki aðeins að vinna fyrsta leikinn og fyrsta einvígið í sögu félagsins - heldur var þetta aðeins í annað skipti í sögu NBA sem lið í áttunda sætinu sló út liðið í fyrsta sætinu í fyrstu umferð.

Margir hafa freistast til að spá Memphis sigri í einvíginu framundan og byggja þá spádóma á áðurnefndu einvígi. Það er skiljanlegt upp að vissu marki, en þó verður að hafa í huga að San Antonio mætir allt öðruvísi til leiks í ár en fyrir tveimur árum.

Nægir að nefna að þeir Antonio McDyess og Richard Jefferson voru í byrjunarliði Spurs í sjötta og síðasta leiknum gegn Memphis fyrir tveimur árum. Aha.

Lið Memphis er með nánast sama lykilmannskap í ár og fyrir tveimur árum en í rauninni má deila um að liðið hafi verið betur mannað á þeim tíma.

Rudy Gay missti af úrslitakeppninni þetta árið vegna meiðsla en Griz gat samt teflt fram mönnum eins og O.J. Mayo og Shane Battier af varamannabekknum.

Aukaleikarar Memphis í dag eiga sína spretti, en vekja ekki ótta hjá nokkrum manni.

Það er ógerningur að spá því hvað gerist í þessu einvígi enda ætlum við alveg að leyfa leikmönnum að ákveða hvað gerist í því. Mjög forvitnilegt verður að sjá hvernig Thiago Splitter (sem er að ná heilsu hægt og bítandi eftir meiðsli og gaf Spurs æ meira eftir því sem á leið á Warriors-rimmuna) og Tim Duncan tekst að eiga við tvíhöfða skrímslið Marc Gasol og Zach Randolph.

Eins verður áhugavert að sjá hvernig Memphis bregst við Tony Parker, sem er upphafið og endirinn á öllum sóknaraðgerðum San Antonio. Ætla mætti að Tony Allen fengi það hlutverk að gæta Tony Parker og gaman verður að sjá hvernig Spurs teflir við það ef af verður.

Við höfum farið rosalega flatt á því að ofmeta getu San Antonio Spurs síðustu ár og olli það okkur slíkri gremju að við skrifuðum minningargrein um liðið sem meistarakandídat fyrir nokkuð löngu síðan - að minnsta kosti fyrir síðasta tímabil.

Þið getið því ímyndað ykkur hvað okkur létti þegar San Antonio missti niður 2-0 forystu sína gegn Oklahoma í úrslitum Vesturdeildar á síðustu leiktíð og gjörsamlega drullaði á sig.

Í ár ættu möguleikar Spurs að vera enn betri og okkur dettur ekki í hug að dæma liðið úr leik gegn Memphis, þó það hafi sýnt ákveðin veikleikamerki í einvíginu við Golden State - sérstaklega þreytu- og ellimerki. Þeir sem plönuðu leikina í úrslitakeppninni voru ekki góðir við Spurs og höfðu á kafla stutt milli leikja og ekki hefur liðið marga daga til að sleikja sárin fyrir Memphis-einvígið.

Memphis getur alveg unnið þetta einvígi. Það gerist með því að halda Tony Parker í skefjum, lemja og útfrákasta Spurs og spila þokkalegan sóknarleik.

Við trúum Memphis alveg til að hanga í Parker og lemja Spurs, en við setjum spurningamerki við sóknarleikinn hjá Grizzlies. Hann er stundum bara ekki nógu góður og það eru ágætis líkur á því að ef San Antonio nær að spila sæmilega góða vörn, muni (stundum) (arfa) slakur sóknarleikur Memphis verða liðinu að falli í einhverjum leikjum.

Aðeins eitt er víst. Það er rosaleg körfuboltaveisla fram undan. Hún hefst í dag (Hvítasunnudag) með fyrsta leik Spurs og Grizzlies og henni lýkur ekki fyrr en upp úr miðjum júní.

Allir þessir leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport og því ætti enginn að þurfa að missa af neinu.

Góða skemmtun.