Monday, May 6, 2013

Fjórða MVP-styttan hjá James


LeBron James var í gærkvöld kjörinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í fjórða skipti á síðustu fimm árum. Einn af þeim 121 sem tóku þátt í kjörinu settu James ekki í fyrsta sæti - eitt fíflið setti Carmelo Anthony í fyrsta sætið. Eyðum ekki fleiri orðum í þann stórskandal.

Kapphlaupið um MVP styttuna hefur ekki oft verið jafn óspennandi og í vetur. James var kjörinn leikmaður Austurdeildarinnar alla mánuðina nema einn (þegar hann fór að hvíla og Melo hitnaði) og er nú kominn í ansi magnaðan hóp manna sem hlotið hafa nafnbótina MVP fjórum sinnum.

Þetta eru Jabbar (6), Russell (5), Jordan (5) og Chamberlain (4). James á nokkuð eftir í þrítugt enn þá og því mætti ætla að hann ætti nóg eftir ef hann sleppur við alvarleg meiðsli og nennir yfir höfuð að spila svona fast í deildakeppninni.

Síðasta rúma árið á ferli LeBron James er á pari við hvaða frammistöðu sem er í sögu NBA. Við vitum alveg að hann skilaði ekki 50/25 meðaltali eins og Wilt gerði hér áður, en við verðum að skoða það í samhengi. NBA deildin var aðeins öðruvísi fyrir hálfri öld síðan.

Hérna eru nokkrar myndir af kappanum. Við samgleðjumst honum sannarlega, enda er hann vel að þessu kominn pilturinn.