Wednesday, May 22, 2013

Aldarfjórðungur frá skotsýningu Wilkins og Bird


Í dag er nákvæmlega aldarfjórðungur liðinn frá því Larry Bird hjá Boston og Dominique Wilkins hjá Atlanta háðu sögulegt einvígi í annari umferð úrslitakeppninnar árið 1988. Þetta var sjöundi leikur liðanna og Boston vann hann 118-116 eftir sannkallaða flugeldasýningu.

Þessi skotkeppni þeirra félaga er gjarnan sýnd í myndbandsannálum NBA deildarinnar og ætti að vera kunnugleg flestum sem fylgst hafa með leiknum fallega. Þeir Bird og Wilkins verða seint sakaðir um að hafa spilað kæfandi vörn hvor á annan þennan dag, en sóknarleikurinn var með því besta sem sést hefur.

Bird skoraði 20 af 34 stigum sínum í fjórða leikhlutanum en Wilkins setti 14 af 47 stigum sínum í lokaleikhlutanum. Wilkins fór gjörsamlega hamförum í þessum leik og hitti úr 19 af 23 skotum utan af velli.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr leiknum. Takið eftir því hvað hljóðgervillinn er þaninn í botn í montage-tónlist 9. áratugarins. Engu líkara en einhver hefði stolið sándtrakkinu úr Rocky IV. Frábært efni.