Sunday, May 5, 2013

Af Bill Walton og meistaraliði Blazers 1977


Portland hefur einu sinni landað meistaratitlinum í NBA. Það var árið 1977 en þá kom liðið nokkuð á óvart með því að leggja Philadelphia 4-2 í úrslitum eftir að hafa lent undir 2-0 í einvíginu.

Þetta var aðeins í annað sinn sem lið varð meistari eftir að hafa lent undir 2-0 og það gerðist svo ekki aftur fyrr en árið 2006 þegar Miami lagði Dallas í úrslitunum.

Portland Trailblazers hafði ekki verið til í nema sjö ár þegar það vann sinn fyrsta og eina titil. Veturinn 1976-77 var merkilegur fyrir þær sakir að þá var ABA deildin lögð niður og fjögur af liðunum sem leikið höfðu þar gengu inn í NBA deildina. Þetta voru Nets, Nuggets, Spurs og Pacers.

Portland og Philadelphia græddu bæði vel á samrunanum, því þá þurfti vitanlega að koma leikmönnunum fyrir sem verið höfðu í liðunum sem voru lögð niður.

Þarna nældi Portland sér í hörkutólið Maurice Lucas og Sixers náðu í Julius Erving - Dr. J - sem var þrefaldur verðmætasti leikmaður ABA deildarinnar og einn besti körfuboltamaður í heimi.

Það var sannarlega nóg af flottum körfuboltamönnum í ABA deildinni og sem dæmi um það má nefna að fimm af þeim tíu leikmönnum sem hófu leik í úrslitaeinvíginu voru fyrrum ABA-menn.

Í liði Philadelphia á þessum tíma mátti finna nokkra menn sem tengjast með einum eða öðrum hætti inn í NBA deildina í dag. Doug Collins, sem nýverið hætti sem þjálfari Philadelphia var leikmaður með liðinu þetta árið og annar þekktur þjálfari var þar sömuleiðis, Mike Dunleavy.

Þriðja þjálfarann var svo reyndar að finna í liði Blazers, en það var Lionel Hollins, núverandi þjálfari Memphis.

Að lokum má nefna að Joe Bryant, pabbi hans Kobe Bryant og Henry Bibby, pabbi hans Mike Bibby voru báðir í leikmannahópi Sixers.

Það kom fáum á óvart að Philadelphia kæmist alla leið í lokaúrslitin árið 1977, enda var þar um að ræða gríðarlega sterkt lið. Færri höfðu reiknað með að Portland kæmist svo langt. Liðið afrekaði það m.a. á leið sinni í úrslitin að sópa LA Lakers út úr úrslitakeppninni.

Jack Ramsay var þarna á sínu fyrsta ári í þjálfarastólnum hjá Blazers og segja má að það hafi verið Heiðurshallarmeðlimurinn Bill Walton sem dró vagninn. Walton er almennt talinn einn besti miðherji sem spilað hefur í NBA, en meiðsli settu alltaf stórt strik í reikninginn hjá honum.

Þarna var Walton hinsvegar heill heilsu á sínu þriðja ári í deildinni og var kjörinn Verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna.


Jack Ramsay lét þau eftirminnilegu orð falla þegar titillinn var í höfn hjá Blazers að hann hefði aldrei þjálfað betri körfuboltamann, meiri keppnismann eða betri manneskju en Bill Walton.

Walton fór mikinn allan þennan vetur fór hamförum í úrslitakeppninni. Til gamans má geta þess að í sjötta og síðasta leiknum í úrslitaeinvíginu skoraði Walton 20 stig, hirti 23 fráköst, varði 8 skot og gaf 7 stoðsendingar. Hann var með 18 stig, 15 fráköst, 5,5 stoðsendingar og 3,4 varin skot að meðaltali í úrslitakeppninni.

Walton var jafnan þekktur fyrir að vera nokkuð sérlundaður og sérstakur náungi - dálítill hippi - en allir elskuðu að spila með honum enda gaf hann alltaf allt sem hann átti í leikina. Hann var líka með einstakan leikskilning og frábæra sendingagetu af miðherja að vera.

Ferill Bill Walton var því miður nánast ein samfelld harmsaga eftir að hann vann titilinn með Portland árið 1977, en eins og margir muna hlaut hann nokkra uppreisn æru þegar hann varð meistari á ný sem aukaleikari í ógnarsterku liði Boston Celtics um miðjan níunda áratuginn.

Eftir það hefur hann svo getið sér gott orð fyrir litríka frammistöðu sína við að lýsa leikjum í NBA deildinni og ef þið spyrjið okkur - er allt of lítið af Walton á skjánum. Hann á engan sinn líkan, hvorki innan né utan vallar.