Tuesday, February 5, 2013

Rod Strickland spilaði einu sinni körfubolta


Já, þetta er Rod Strickland. Frábær leikmaður á sínum tíma, en virðist þó aldrei hafa lært listina að vera leikstjórnandi fullkomlega, því það heyrði til undantekninga ef hann spilaði með sama liðinu tvö ár í röð.

Við munum eftir Strikland spila með Portland, New York og San Antonio á fyrstu árum hans í deildinni og það sem við sáum til hans, spilaði hann mjög vel. Hann var að skila þetta 18-19 stigum og um níu stoðsendingum þegar hann var upp á sitt besta.

Skondið að hugsa til þess að leikmennirnir sem orðið hafa stoðsendingakóngar í NBA deildinni frá árinu 1999 eru allir enn að spila í deildinni, en sá sem hreppti titilinn árið 1998 var einmitt Rod Strickland. Það var í eina skiptið sem hann hlaut þennan heiður.

Árið á undan var það Mark Jackson þjálfari Golden State og árin níu í röð þar á undan var það John Stockton sem átti þennan tölfræðiflokk.

Af hverju fórum við allt í einu að hugsa um Rod Strickland, spyrðu?

Af því það er ennþá maður að spila í NBA deildinni í dag sem spilaði með Rod Strickland á sínum tíma, sem er nokkuð magnað ef þú pælir í því.

Og jú, af því Strickland er guðfaðir Kyrie Irving, besta tvítuga körfuboltamannsins í sólkerfinu.

Áður en þú rífur á þér hausinn við að komast að því hvaða leikmaður það er sem spilaði með Rod Strickland á sínum tíma og er enn að spila í dag, er líklega best að segja þér það.

Það er Mike James, sem nú er meira að segja að fá mínútur hjá Dallas.

Kíktu á ferilinn hans, hann er ekki síður skrautlegur og ferill Strickland. Hann hefur aldrei haft tíma til að verða leiður á skápnum sínum.

Svona gerist þegar sá sem er á vaktinni hjá NBA Ísland það kvöldið byrjar að skrifa það sem hann er að hugsa. Lítið við því að gera.