Saturday, January 12, 2013

Lakersvaktin og nokkur orð um NBA Countdown


Ekki verður það auðveldara, verkefnið hjá Los Angeles Lakers (15 sigrar -21 töp).

Liðið átti aldrei, aldrei, aldrei möguleika á heimavelli sínum í nótt þegar það steinlá fyrir Kevin Durant (42 stig) og félögum í Oklahoma.

Lakers hefur nú tapað fimm leikjum í röð sem er lengsta taphrina liðsins síðan það tapaði sjö í röð vorið 2007.

Við höfum ekki áhyggjur af því að taphrinan verði sú lengsta í sögunni hjá Lakers, það er alltaf stutt í næsta leik við Bobcats, en þegar við skoðum framhaldið hjá liðinu kemur í ljós að það eru líka erfiðir leikir á dagskránni.

Þannig eru tíu af næstu sextán leikjum Lakers útileikir (sjá mynd hér að neðan). Liðinu hefur ekki vegnað glæsilega á útivöllum (5-12), en heimavöllurinn er svo sem ekki glæsilegur heldur (10-9).

Síðast þegar Lakers spilaði 82 leikja tímabil, tapaði liðið ellefu leikjum heima allt tímabilið, en það þótt nú reyndar frekar slakur árangur fyrir lið eins og Lakers.

Sem dæmi um andstæðinga sem bíða með blóðbragð í munninum eftir Lakers á næstu dögum má nefna Miami (heima og úti), Chicago (úti), Memphis (úti), Oklahoma, Brooklyn (úti) og Boston (úti). Þetta verður ekkert skemmtiskokk og enn síður með lykilmenn á meiðslalistanum.

"Ég er hræddur um að þetta sé búið spil hjá Lakers-liðinu mínu," sagði Magic Johnson, annar ofur-hómerinn (hinn er Bill Simmons) í annars ágætum þætti ESPN sjónvarpsstöðvarinnar NBA Countdown í nótt.*

Það er lítið að marka bullið sem kemur upp úr Magic í sjónvarpinu, því miður, en við hugsum að þetta hafi hann sagt í algjörri einlægni. Ekki bara til að reyna að kveikja í liðinu sínu - hann er löngu búinn að reyna það - hann bara sér ekkert í spilunum hjá þeim gulu.

Ekki við heldur.

Það er ekkert að frétta af þessu liði nema fleiri meiðslasögur. Nú þykir ljóst að Jordan Hill þurfi í uppskurð og komi ekki meira við sögu hjá Lakers á leiktíðinni.

Einmitt það sem vantaði...

Ef hlutirnir þróast eitthvað svipað og undanfarin ár í Vesturdeildinni, það er að segja ef það verður hvergi nærri nóg að vera með 50% vinningshlutfall til að ná áttunda sætinu inn í úrslitakeppni, er Lakersliðið í djúpum skít.

Síðustu fimm tímabil, hefur liðið í áttunda sætinu í Vesturdeildinni verið að vinna að jafnaði 48 leiki. Samkvæmt ESPN þýðir þetta að Lakers þurfi að taka 33-14 lokasprett (yfir 70% vinningshlutfall) til að fá að vera með í alvörunni.

Sem sagt hætta að tapa og byrja að vinna á morgun!

Þetta lið hlýtur bara að ná að snúa aðeins við blaðinu í vetur, annað virðist ómögulegt, en það virkar fremur ótrúlegt að viðsnúningurinn verði það öflugur að liðið nái inn í úrslitakeppni.

Til að svo megi verða, verður Lakersliðið ekki aðeins að snúa gjörsamlega við blaðinu og fara að vinna, heldur þarf það að treysta á að lið eins og Golden State, Denver, Houston, Utah, Minnesota drulli gjörsamlega í brækurnar á móti.

Seinni möguleikinn þykir okkur reyndar líklegri en sá fyrri.

----------

* Við höfum ekki horft mikið á NBA Countdown sem er svar ESPN við hinum margverðlaunaða Inside the NBA þætti TNT stöðvarinnar með Charles Barkley og félögum.

Í þættinum í nótt sáum við Bill Simmons, Michael Wilbon, Magic Johnson og Jalen Rose, en þeir eru reyndar bara fjórir af fjölmörgum starfsmönnum ESPN sem sjá um þáttinn (og kannski sem betur fer ef marka má þátt næturinnar).

Það var eitt stórt vandamál við þennan þátt í nótt og það er hómerismi þeirra Bill Simmons og Magic Johnson. Allir sem fylgjast eitthvað með NBA vita að Simmons er harður Celtics-maður og Magic heldur auðvitað upp á Lakers-liðið sitt.

Gallinn er bara sá að áhorfendur fá engan frið fyrir þessum staðreyndum og þeim er afdráttarlaust nuddað framan í áhorfandann. Það má skilja að Magic beri taugar til Lakers, maðurinn vann jú marga titla með liðinu og er goðsögn, svo hann fær smá séns. Hann fer þó langt yfir strikið og stundum fá önnur lið en Lakers lítið að komast að hjá honum.

Simmons er miklu verri. Hann talar bara um Celtics og enn meira um þá staðreynd að hann haldi með Celtics, sem er orðið gjörsamlega óþolandi. Hann virðist til dæmis halda að það komi Celtics eitthvað við að það gangi illa hjá LA Lakers.

Simmons ætti að halda sig við það sem hann gerir vel. Af hverju að troða manni í sjónvarp sem virkar svona vel með pennann og í Hlaðvarpinu?

Það má vel vera að þetta eigi við um einhverja fleiri *hóst* en þetta eru nú samt okkar tvo sent á NBA Countdown og mannskapinn sem þar er.