Monday, January 14, 2013

Graz-verjarnir hrikalegu


Við fengum ekki mörg svör við spurningu dagsins sem við settum upp hérna fyrir stuttu. Við spurðum ykkur hvaða hrikalegu menn þetta væru - og hvað þeir ættu sameiginlegt.

Fjögur af svörunum sem bárust voru reyndar rétt, þó þau væru ekki nákvæmlega svörin sem við vorum að leita eftir.

Þetta eru vissulega Arnold Schwarzenegger, Manfred Hoeberl og Emanuel Pogatetz.

Arnold gamla þarf ekki að kynna fyrir nokkrum manni en Hoeberl er fyrrum aflraunamaður sem gerði það gott í greininni og kom meðal annars hingað til lands fyrir nokkrum árum.

Hann var meðal annars sterkasti maður Evrópu tvisvar og náði best silfri í Sterkasti maður heims árið 1994.

Hoeberl var á sínum tíma sá maður sem var með stærstu upphandleggsvöðva í heiminum (rúma 65 cm), en hann þurfti svo að hætta í kraftastússinu eftir að hafa verið hársbreidd frá dauðanum í umferðarslysi.

Margir þekkja svo eflaust Pogatetz, en hann er knattspyrnumaður sem flestir muna eftir þegar hann lék með Middlesborough, en hann er nú á mála hjá Wolfsburg í Þýskalandi og að sögn sumra engu síður hrikalegur í greininni en hinir tveir í sinni.

Allir eru kapparnir Austurríkismenn, en þeir eru reyndar tengdari en það, því þeir eru allir frá borginni Graz, sem er næst stærsta borg Austurríkis þó þar búi innan við 300 þúsund manns. Það er því ljóst að þrátt fyrir hóflega íbúatölu, gefur Graz Íslandi ekkert eftir þegar kemur að því að framleiða hrikalega afreksmenn.

Látum þetta gott heita af gagnslausum fróðleik í bili.