Thursday, January 17, 2013
Áfangi hjá LeBron James
Megnið af körfuboltaskrifum dagsins í dag fjalla um LeBron James, sem í nótt varð yngsti leikmaður í sögu NBA til að komast yfir 20 þúsund stiga múrinn (og er því kominn á listann hér fyrir ofan aðeins nokkrum dögum eftir að hann varð 28 ára).
James lék mjög vel þær mínútur sem leikur Miami og Golden State var spennandi og tók ekkert aukalega fyrir að rjúfa 5000 stoðsendinga múrinn í leiðinni úr því hann var að þessu talnastússi á annað borð.
Það gerist auðvitað ekki á hverjum degi að svona ungir menn nái svona stórum tölfræðiáföngum, en þið megið ekki láta tölurnar hlaupa með ykkur út í einhverja vitleysu.
Wilt Chamberlain og Michael Jordan hefðu til að mynda náð þessum áfanga langt á undan James ef þeir hefðu komið inn í deildina um bílprófsaldurinn eins og hann.
Svo verður líka að taka með í reikninginn að sumir af atkvæðamestu skorurum í sögu deildarinnar, til dæmis þeir Kobe Bryant og Karl Malone úr 30 þúsund stiga klúbbnum, urðu ekki stórskorarar fyrr en eftir nokkur ár í deildinni.
Það flotta við þetta hjá James er að hann var næstum því fullmóta leikmaður þegar hann kom inn í deildina sem krakki og hefur því forskot á aðra mennskari menn hvað það varðar.
Auðvitað er gaman að skoða tölfræðina, hún er partur af ferðalaginu, en það verður stundum að skoða hana í samhengi. LeBron James þarf þannig að skora 25 stig að meðaltali í leik og spila lágmark 75 leiki á tímabili fram á leiktíðina 2022-23 ef hann ætlar sér að ná Kareem Abdul-Jabbar í efsta sæti stigalistans.
Það er ekki óhugsandi að James verði að spila í deildinni þegar hann verður 38 ára, en ólíklegt verður að teljast að hann verði svo iðinn við kolann í stigaskorun fram að því.
Og þó...
Hér fyrir neðan er listi yfir leikmenn í sögu NBA sem hafa skorað 20 þúsund stig, hirt 5000 fráköst og gefið 5000 stoðsendingar. LeBron James er nú kominn í þennan hóp en hann á enn tvö ár í þrítugt og er hvergi nærri hættur ef að líkum lætur.
Efnisflokkar:
Áfangar
,
LeBron James
,
Sögubækur
,
Tölfræði