Saturday, December 8, 2012
New York er enn að vinna körfuboltaleiki:
Það er sannarlega með ólíkindum, en nú þegar tæpur fjórðungur er búinn af leiktíðinni í NBA, er New York enn í efsta sæti Austurdeldarinnar - einum og hálfum leik á undan meistaraliði Miami Heat.
Geðveikustu einstaklingar hefðu aldrei spáð þessu. Breytingarnar sem urðu á liði New York milli tímabila þóttu fremur fyndnar en líklegar til árangurs. New York hafði ekki úr miklu að moða á leikmannamarkaðnum í sumar enda eru lykilmenn liðsins ansi dýrir í rekstri. Félagið ákvað þó að næla sér í nokkra leikmenn sem flestir voru komnir nokkur ár fram yfir síðasta söludag.
Spólum aðeins áfram og í dag sigur liðið í efsta sæti Austurdeildar eins og áður sagði, með 14 sigra og aðeins fjögur töp. Við skrifuðum nokkur orð um New York liðið fyrir nokkrum vikum en urðum hreinlega að endurtaka það úr því að Öskubuskuævintýrið lifir enn.
Það er ósköp eðlilegt að óvæntir hlutir gerist í NBA deildinni og við fáum oft óvæntar sigurgöngur úr ólíklegum áttum. Fáir sáu þessa hjá Knicks þó fyrir.
Kíkjum á nokkrar tölur.
Vissirðu að New York er 32-10 síðan Mike Woodson tók við liðinu í mars?
Vissirðu að liðið er 19-1 á heimavelli í tíð Woodson? Nítján - eitt!
Liðið hefur aðeins tapað fyrir Miami (á síðustu leiktíð) í Garðinum síðan Woodson tók við, en það hlæja allir að því í dag, því nú virðist New York skyndilega vera komið með tak á meisturunum. Já, það heitir að vera með tak á andstæðingnum þegar Knicks hefur unnið báða leiki liðanna í vetur með tuttugu stiga mun!
Vissulega hefur New York mátt muna fífil sinn fegurri undanfarin ár, það dylst engum. Sérstaklega stuðningsmönnunum - fólkinu sem okkur verður alltaf hugsað til þegar við tölum um New York.
Það eru alltaf þessar villtu vonir í Madison Square Garden, en það er langt síðan partíið náði fram á morgun hjá Spike Lee og félögum.
Knicks hefur ekki unnið meira en 50 leiki í deildakeppninni síðan árið 1997, eða rétt áður en Michael Jordan hætti að leika með Chicago Bulls.
Og já, New York hefur ekki unnið nema þrjá leiki í úrslitakeppninni síðan árið 2001.
Það er hræðilegur árangur - um það er engum blöðum að fletta. Þetta hefur verið hræðilegur áratugur.
En nú virðist skyndilega vöknuð von í New York - og það alvöru von - ekki bara einhver blaðra. Það á að vísu ekki að vera fræðilegur möguleiki að liðið haldi þeim dampi sem það hefur verið á á fyrsta fjórðungnum.
Það er svo sem engin ástæða til að ætla að liðið fari eitthvað að drulla alvarlega á sig úr því sem komið er ef það sleppur við meiðsli. Það á nú einu sinni þá Amare Stoudemir og Iman Shumpert inni, hvernig sem Mike Woodson fer að því að sauma þá inn í þetta á ný.
New York spilar vörn, passar boltann og deilir honum vel innan liðsins. Svo skjóta þessir brjálæðingar þriggja stiga skotum þangað til þeim blæðir úr fingurgómunum. Þetta hljómar allt voðalega einfalt og meira að segja vandræðapésarnir kaupa þetta og koma að notum.
Ja, hérna. Lítið annað hægt að segja.
Það er kannski að koma upp úr kafinu að Mike Woodson sé eftir allt þokkalegur þjálfari - þó ekki sé hann brúnaþungur.
Hvað varð um allan þennan óþolandi Iso-Joe sóknarleik sem hann var gagnrýndur svo mikið fyrir þegar hann stýrði Atlanta Hawks?
Hvað hefur orðið um bölvunina sem legið hefur á New York-liðinu og hindrað framgöngu þess ár eftir ár?
Höfum við kannski vanmetið leiðtogahæfileika pensjónistanna svona rosalega?
Við höfum bara alls ekki nógu mikið vit á körfubolta til að geta svarað öllum þessum spurningum, en þess í stað lyftum við bara skál fyrir Knicks í annað sinn á leiktíðinni.
Drekkið á meðan þetta er heitt.
Svo skoðum við hvort New York ætlar enn að vinna Austurdeildina þegar Stjörnuleikurinn verður haldinn.
Efnisflokkar:
Knicks
,
Knicksblæti
,
Öskubuskuævintýri
,
Velgengni