Friday, November 30, 2012
Ristill: David Stern vs San Antonio
Enn og aftur erum við með óbragð í munninum yfir fyrirætlunum David Stern. Hann hefur nú gefið það út í dramakasti að hann ætli að refsa San Antonio fyrir ákvörðun þjálfarans að hvíla lykilmenn liðsins í útileik þess gegn Miami í nótt.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Popovich þjálfari Spurs gerir þetta. Hann gerði þetta amk í tvígang á síðustu leiktíð og fékk liðið stóran skell í annað skiptið. San Antonio hefur aldrei unnið leik þegar Popovich hefur ákveðið að hvíla þá Duncan, Ginobili og Parker og það breyttist ekki í nótt, þó tapið væri afar naumt gegn meisturunum.
Twitter hefur auðvitað logað út af þessu máli í alla nótt og við verðum að segja að það kemur okkur á óvart hve margir hafa tekið upp hanskann fyrir viðbjóðinn hann David Stern í þessu máli.
Það þýðir þó ekki að megi ekki finna að þessari ákvörðun Popovich, alls ekki.
Við erum af gamla skólanum og þó Popovich eigi að heita það líka, hefur það ekki aftrað honum frá því að taka þessa umdeildu ákvörðun um að hvíla fjóra stigahæstu leikmenn sína fyrir leikinn í Miami.
Það sem við eigum við þegar við segjum að við séum af gamla skólanum, er best að útskýra með því að vitna í Jerry Sloan, fyrrum þjálfara Utah Jazz. Sloan benti alltaf á það að leikmenn skulduðu fólkinu það að gefa 100% í alla leiki - alltaf - því fólkið sem borgaði stórfé inn á leikina ætti það skilið.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá þeim gamla og ekki var hann að hvíla sína menn Stockton og Malone með þessum hætti, þó þeir spiluðu báðir fram undir og yfir fertugt hjá honum.
Sloan þekkti það jafnvel betur en Popovich hvernig var að keyra á lykilmönnum sem komnir voru langt fram yfir sitt léttasta skeið, svo hans skoðun telur því þungt í þessu samhengi að okkar mati.
NBA leikmenn eru, þegar öllu er á botninn hvolft, milljarðamæringar og eiga því að vera nógu góðir til að spila þessa leiki sem eru á töflunni eins og allir aðrir.
Annað atriði sem er auðvelt að gagnrýna við ákvörðun Pop, er að hann skuli senda leikmennina upp í flugvél og heim til Texas - í stað þess að leyfa þeim bara að sitja á bekknum og hvíla.
Að senda þá heim gerir meira í því að senda deildinni langt nef en bara það að hvíla þá (þó það sé auðvitað miklu meiri hvíld í því að fara bara heim í sófa).
En nú komum við að hinni hliðinni á peningnum - hliðinni sem snýr upp að okkar mati.
Gregg Popovich ræður hvað hann gerir við liðið sitt og það kemur engum rassgat við. Hvorki þér né David Stern
Popovich, Duncan, Parker og Ginobili hafa unnið sér það inn frá því fyrir aldamót að gera það sem þeim fokkíngs sýnist. Þeir hafa unnið sér inn virðingu til þess og höfðu í þessu tilviki unnið sér inn fyrir því að fá smá frí, því liðið hefur byrjað leiktíðina með bravúr og var að koma úr bestu útileikjarispu Í SÖGU NBA áður en kom að Miami leiknum.
Spurs var búið að vinna 29 af síðustu 33 útileikjum sínum og toppar þar m.a. ótrúlegan árangur Chicago-liða Michael Jordan á sínum tíma - annað þeirra náði til að mynda besta árangri allra tíma, 72-10.
Þá hefur þessi lykilmannskapur San Antonio jú unnið fjóra meistaratitla, svo ef einhver þjálfari og einhver mannskapur hefur unnið sér það inn að fá að hvíla einn bévítans leik - er það þetta San Antonio lið.
Ef það er einhver ákveðin tegund leikmanna í NBA sem er líklegri en önnur til að meiðast, er það leikmenn sem eru undir gríðarlegu álagi.
Ef einhver tegund leikmanna er líklegri en þessi til að meiðast, eru það gamlir leikmenn undir miklu álagi.
Það er nóg af þessum efnivið í San Antonio og þetta veit Popovich ósköp vel. Hann er að tefla til að vinna meistaratitil, ekki til að reyna að komast í úrslitakeppnina. Hann er að spila heilt tímabil, ekki bara að reyna að vinna næsta leik til að bjarga á sér beikoninu eins og svo margir aðrir þjálfarar í NBA.
Og ekki fara að væla um að stuðningsmenn Miami hafi borgað góðan pening til að sjá stórstjörnur San Antonio. Þið vitið öll að San Antonio er almennt álitið minnst sexí körfuboltalið í deildinni af Jóni Jónssyni úti í bæ og 90% af kasjúal fans eru búnir að fá hundleið á Spurs fyrir tíu árum síðan.
Það er ekki verið að neita þeim um að sjá Kobe eða Durant. Þetta er gamla, leiðinlega San Antonio, svo þessi afsökun er ekki tekin gild. Sorry.
Það er til fordæmi um svona sektir í NBA. Valdafyllibyttan David Stern sektaði Pat Riley og Los Angeles Lakers um 25 þúsund dollara árið 1990 fyrir að hvíla lykilmenn eins og Magic Johnson og James Worthy í lokaleik deildakeppninnar.
Það er einfaldlega rangt að Stern skuli rísa upp á afturlappirnar og taka geðkast allt í einu núna þegar Spurs er búið að gera þetta oft áður. Það er því eiginlega sársaukafullt hve augljóst það er af hverju Stern er að bregðast svona við núna.
Stern hefur fengið símtal frá reiðum toppi frá TNT sjónvarpsstöðinni þegar í ljós kom að Spurs ætlaði að hvíla sína bestu menn, því auðvitað snýst NBA deildin ekki um neitt annað en peninga eins og allt annað.
Sjónvarpspeningar eru dýrmætustu og mestu peningarnir í öllu NBA-samhenginu og David Stern er ekki maður sem lætur skamma sig. Hann mun því taka alla sína ógæfu út á San Antonio og setja eitt af sínum fasistafordæmum, sannið til.
Refsingin sem hann mun skella á Spurs er aukaatriði í sjálfu sér, það eru viðbrögð Stern sem fara í taugarnar á okkur. Var virkilega ekki hægt að ræða málin? Var ekki hægt að gefa Spurs aðvörun?
Heimildir herma að Stern hafi ekki svo mikið sem sett sig í samband við San Antonio áður en hann rauk í fjölmiðla og gaf út að hann ætlaði að refsa félaginu. Þetta eru dæmigerð diktatoravinnubrögð hjá þessum hrokafulla, peningagráðuga og valddrukkna fáráði.
Stern var maðurinn sem kom NBA deildinni á koppinn, það verður ekki af honum tekið, en rétt eins og margir menn í valdastöðum, vissi hann ekki hvenær hans tími var kominn. Hann hefði átt að hætta fyrir löngu síðan.
Verst af þessu öllu er svo þessi óþolandi hræsni í yfirlýsingu hans að biðja stuðningsmenn NBA afsökunar á gjörðum San Antonio í kvöld.
Ertu að grínast, gölturinn þinn!?!
*Hvernig væri að byrja á að biðjast afsökunar á Donaghy-skaldalnum?
*Hvernig væri að biðjast afsökunar á verkbanninu í fyrra?
*Hvernig væri að minnka álagið á leikmenn í deildinni?
*Hvernig væri að biðjast afsökunar á því hvernig nokkur lið gera það viljandi og kerfisbundið að tapa leikjum á hverju einasta vori út af gölluðu kerfi í deildinni? #Tanking
*Hvernig væri að biðjast afsökunar á Charlotte Bobcats og Washington Wizards?
Líttu í eigin barm, hrokafulla, elliæra svín.
Það verður dásamlegt þegar þú hættir.
Efnisflokkar:
Álag
,
David Stern
,
Frussandi gremja
,
Gregg Popovich
,
Hræsni
,
Markaðsmál
,
Ristill
,
Spurs