Tuesday, November 27, 2012

Eigum við að hafa áhyggjur af Clippers?


Nei, ekki stórar.

Þetta er niðurstaða vísindalegrar skyndikönnunar sem við gerðum í nótt eftir að Clippers drullaði enn og aftur á sig á heimavelli gegn liði sem það ætti að nota sem dyramottu.

Smelltu á myndina hér til hliðar til að sjá skeddjúlið hjá Clippers það sem af er.

Leikur Clippers og Hornets í nótt var sannarlega fjörugur og meira að segja sögulegur í leiðinni.

Caron Butler sló félagsmet Randy Foye (8) frá í fyrra með því að setja níu þrista fyrir Clippers. Það kom þó ekki í veg fyrir að New Orleans færi með nokkuð sannfærandi sigur af hólmi 105-98 í Staples Center.

Fjögur stig (1-9 í skotum) Blake Griffin hjálpuðu Clippers liðinu frekar lítið.

Þetta var fjórða tap Clippers í röð og því eru margir farnir í panikk, því það eru ekki margir dagar síðan menn voru að tala um Clippers sem alvöru áskoranda í slagnum um Vesturdeildina.

Þolinmæði og yfirvegun hefur aldrei verið sterkasta hlið þeirra sem fylgjast með NBA. Gildir þá einu hvort um er að ræða blaðamenn eða almenna aðdáendur.

Við skulum samt kíkja á töfluna hjá Clippers og kryfja þetta betur. Clippers átti, fyrir það fyrsta, að byrja leiktíðina 10-0.

Aðeins aulaleg heimatöp fyrir Golden State og Cleveland komu í veg fyrir þessa fullkomnu byrjun. Ekkert annað en vanmat og leti í gangi. Þess vegna byrjaði liðið 8-2 í stað 10-0.

Þessi fjögur töp sem hafa komið í kjölfarið eru svo ofur-skiljanleg.

Þrír fyrstu leikirnir voru á útivelli. Fyrst tapar liðið fyrir Oklahoma City í framlengdum naglbít og er því næst svo óheppið að hitta á einn af þremur leikjum Nets í vetur þar sem liðið nær að spila vörn.

Strax kvödið eftir kemur svo tap fyrir Atlanta Hawks, en slík töp er auðvelt að skrifa á þreytu.

Það er mikil og stór klisja í NBA að enginn leikur sé jafn "hættulegur" og fyrsti leikurinn á heimavelli eftir nokkurra leikja keppnisferðalag.

Þessi klisja sannaðist heldur betur í nótt þegar Clippers tók á móti New Orleans Hornets, sem var án sinna tveggja bestu manna og búið að tapa sjö leikjum í röð.

Clippers átti aldrei möguleika í leiknum, þó baráttan hafi verið til staðar, amk í síðari hálfleik. Það er bara erfitt að vinna lið sem skjóta 15 af 25 (60%) úr þristum.

Stuðningsmenn Clippers þurfa ekki að örvænta. Við kíktum á töfluna hjá liðinu út árið og getum með sanni sagt að hún er ekki ýkja ógnvekjandi. Liðið á ekki einn leik við mjög sterkt lið fram að áramótum. Boston, Denver, Dallas - þetta eru bestu liðin sem Clippers á við að eiga út árið - restin er drasl.

Lamar Odom hefur kannski algjörlega misst áhuga og ástríðu fyrir körfubolta, en Clippers á eftir að fara skælbrosandi inn í nýja árið í bullandi samkeppni um toppsætið í Vesturdeildinni.

Það yrði þó enn betra fyrir Clippers ef töpin yrðu fleiri en sigrarnir á næstu vikum, því þá myndi stjórnin kannski sjá að sér og reka þjálfarann. Del Negro er engan veginn nógu góður þjálfari til að stýra jafn góðum mannskap og Clippers hefur innan sinna raða.

Ræður ekkert við verkefnið.