Sunday, October 7, 2012
Úrvalsdeildin er byrjuð á ný, krakkar.
Strákarnir í Fjölni byrjuðu leiktíðina í Úrvalsdeildinni á því að gefa spámönnum langt nef og leggja meistaraefnin í KR. Það er prýðilegur sigur, sama hvernig á það er litið og gaman fyrir Hjalta Vilhjálmsson að byrja þjálfaraferilinn með þessum hætti. Þú sérð hann enda hrista krepptan hnefann af fögnuði í leikslok á neðstu myndinni í færslunni.
Við heyrðum vin okkar Jón Björn ritstjóra karfan.is lýsa því yfir í spjalli á Sportrásinni á dögunum að Fjölnisliðið gæti unnið hvaða lið sem er á góðum degi. Þetta var góður dagur.
Það verður enginn að pæla í því í vor hvernig þessi leikur fór, ef einhverjir KR-ingar ætla að fara í þunglyndi yfir þessu. Engin ástæða til þess auðvitað.
Ritstjórninni þótti ákaflega gaman að sjá þá Helga og Brynjar aftur í aksjón með KR. Auðvitað er það sterkt að íslenskir piltar séu að spila úti í löndum í skólum og atvinnudeildum, en ritstjórn NBA Ísland hugsar auðvitað bara um skutinn á sjálfri sér og vill því hafa þessa skemmtikrafta alla saman heima á Íslandi svo hægt sé að horfa á þá í hverri viku.
Í framhaldi af því er rétt að benda þeim Pavel Ermolinski, Hlyni Bæringssyni og Ægi Þór Steinarssyni að fara nú að drífa sig heim sem fyrst bara...
Ritstjórn NBA Ísland er á sama máli og aðrir Íslendingar þegar kemur að Helga Magnússyni. Hann er auðvitað algjör toppmaður. Við erum hinsvegar alls ekki sátt við það hlutverk sem hann á að skila hjá KR, ef það hefur ekki komið fram hjá okkur áður. Teljum það hvorki KR né Helga til framdráttar að þurfa að gera tvo hluti í einu.
Brynjar Þór var ekki lengi að minna okkur öll á það hvers við söknuðum þegar hann var í burtu. Einstaklega skotviss og skemmtilegur leikmaður.
Þjálfarinn spilandi náði sér ekki á strik í sóknarleiknum, enda upptekinn með hugann við allt annað. Ætli sé ekki best að þú venjir þig strax við það að við séum að tuða yfir hlutverki Helga, við gætum átt eftir að gera það í allan vetur.
Fjölnismaðurinn ungi Gunnar Ólafsson náði sér í prik hjá okkur í kvöld.
Árni Ragnarsson er valmenni og höfðingi. Það vita auðvitað allir, en það verður bara ekki sagt nógu oft. Við getum ekki hugsað til þess hvar Fjölnisliðið væri án hans. Algjör baráttuhundur, fjölhæfur, sterkur og liðsmaður út í gegn. Ekki hægt að hugsa sér mikið betri menn til að leiðbeina ungu kynslóðinni en Árna.
Úrvalsdeildin er byrjuð krakkar.
Hún er nú kennd við flatbökurnar frá Domino´s. Það stuðlar að minnsta kosti. Með fullri virðingu fyrir flugfélaginu sem áður var bakhjarl deildarinnar, var nafnið óskaplega óþjált. Dominosdeildin hljómar hundrað sinnum betur.
Góða skemmtun, góðar stundir.
Efnisflokkar:
Fjölnir
,
Heimabrugg
,
KR