Wednesday, October 17, 2012
Dásamlegir brestir Bryants
Við vitum að það er ekki mikið að marka hluti sem gerast á undirbúningstímabilinu, en hægt er að koma auga á eitt og annað skemmtilegt ef vel er að gáð. Tendensa, strauma og stefnur.
Eins og í nótt þegar Lakers tók á móti Jazz í Anaheim. Dwight Howard og Pau Gasol voru ekki með Lakers og Kobe Bryant virkaði áhugalaus í fyrri hálfleik. Það var eins og hann nennti ekki að spila leikinn, enda lítið í húfi.
Í þriðja leikhluta rann hinsvegar á hann æði. Bryant skoraði þá 23 stig, meðan restin af liðinu skoraði jú... eitt stig. Og mótherjinn? 36 stig.
Lakersliðið var 30+ stigum undir allan tímann meðan Bryant hamaðist og hamaðist. Tók hvert slæma skotið á fætur öðru. Mörg þeirra fóru ofan í og náðu að kveikja aðeins í áhorfendum, sem virtust jafn áhugalausir og Bryant í fyrri hálfleiknum en skemmtu sér nú konunglega.
Þegar þriðja leikhlutanum lauk var staðan orðin 88-51 fyrir Jazz.
Það er ekkert að marka þessar tölur, þær segja ekki neitt, enda vantaði mikið í Lakersliðið sem leyfði mörgum vindlum að spila.
Við vorum heldur ekkert að spá í það.
Við vorum að horfa á Kobe Bryant. Þessa gangandi mannfræðirannsókn, þessa ráðgátu.
Ætlaði hann í raun og veru að skjóta Lakers inn í leikinn aftur - eða var hann bara að leika sér í æfingaleik? Fannst honum á einhverjum tímapunkti dálítið kjánalegt að enginn nema hann skoraði körfu í leikhlutanum?
Og það sem meira er.
Mun þessi maður kaupa það sem þjálfarateymið leggur fyrir hann og leika við hina krakkana í vetur? Og mun það bera árangur?
Ef þú sættir þig við styttri útgáfuna af svarinu, er það nei.
En okkur er alveg sama um það líka. Það sem okkur finnst áhugaverðast er að fylgjast með Kobe Bryant sjálfum. Þessu ólíkindatóli sem gengur svo illa að þekkja sín takmörk.
Það gæti orðið dálítið átakanlegt að horfa á Kobe Bryant á lokasprettinum sínum í deildinni.
Hann sættir sig ekki við það að hafa ekki alveg sömu burði og áður. Hann langar að vinna þig og liðið þitt upp á sitt einsdæmi, en hann getur það ekki lengur. Tölfræðin er öll á hægri niðurleið ár frá ári.
Auðvitað er ekkert að því að eldast. Ekki ætlum við að skamma Bryant fyrir það. Allir leikmenn eldast fyrir rest. Við höfum bara dálitlar áhyggjur af því hvernig hann aðlagast hækkandi aldri andlega.
Bryant er ekki orðinn neitt gamalmenni, en hann er að verða búinn að spila óhemjufjölda mínútna í deildinni og hefur litla sem enga hvíld fengið síðustu ár. Hann hefur verið heppinn með meiðsli en allt þetta púl fer líka smátt og smátt að naga í lappir hans og liði.
Við höfum oft sagt þetta áður, en við skulum öll fylgjast vel með Kobe Bryant á síðustu árum hans í deildinni. Ekki bara af því hann er einstakur leikmaður og einn af þeim bestu, heldur af því það gæti orðið sápuópera út af fyrir sig hvernig honum tekst að eiga við sjálfan sig, þegar skrokkurinn hættir að geta framkvæmt það sem tryllt keppnisskapið skipar honum.
Fjölda fólks er í nöp við Kobe Bryant og hann fer oft í taugarnar á okkur, en hann er leikmaður sem þvingar þig til að bera virðingu fyrir sér af því hann er alltaf þarna. Eins og íslenskt slagveður - vindurinn er alltaf í andlitið á þér.
Kobe Bryant er alltaf fyrstur á æfingar og síðastur út. Er brjálaður keppnismaður í Ólsen-Ólsen, á æfingum og í leikjum, alveg sama hvort það er á undirbúningstímabilinu, úti í porti eða í leik sjö í úrslitum. Hann er alltaf í árásarham, alltaf tilbúinn að drepa eins og skriðdýrið sem hann líkti sér við. Hann vill alltaf vinna, skora meira en þú, vera betri en þú. Hljómar kunnuglega, en svona eru ekki allir.
Það er ekki hægt annað en að hrífast af þessu, þó þetta snúist stundum í höndunum á honum. Eitt það besta við NBA körfuboltann er að verða vitni að því þegar þessar ofurstjörnur verða mannlegar. Skoðaðu efstu myndina í þessari færslu, en hún er frá Free Darko piltunum og lýsir skapgerðarbrestum Bryant skemmtilega.
Kobe Bryant var bara strákpeð þegar hann kom fyrst inn í deildina og var engin stjarna þó hann væri efnilegur.
Hann þurfti að vinna fyrir öllu sem hann fékk. Það er eitt af því skemmtilega við feril Bryant.
Hann er ekkert silfurskeiðarbarn á körfuboltasviðinu, þó hann sé uppalinn hjá Lakers og sonur pabba síns. Hann vann jú þrjá titla snemma, en menn verða ekki heimsklassa körfuboltamenn bara af því að spila með Shaquille O´Neal.
Kobe fór á bókasafnið og tók bókina "NBA 101" þegar hann var ungur maður. Hann las bókina spjaldanna á milli og kynnti sér hvernig forverar hans höfðu farið að því að vinna titla.
Nærtækasta dæmið fyrir hann var að herma eftir Michael Jordan, enda eru þeir svipaðir íþróttamenn, svipaðir á hæð og spila sömu stöðu.
Svo var bara að gera eins og strákurinn í Sprite auglýsingunni með Grant Hill gerði forðum: Æfa sig.
Kobe Bryant verður aldrei Michael Jordan, en það mun aldrei koma fram leikmaður sem hermir betur eftir honum. Hann gæti þurft að sætta sig við að hafa "aðeins" unnið fimm meistaratitla. Einum fleiri en þú veist og einum færri en þú veist. Ekki alslæmt.
Það verður risavaxið, skarðið sem Kobe Bryant skilur eftir sig þegar hann hættir að spila. Það er því best að njóta þess og fylgjast náið með honum á lokasprettinum. Eitthvað segir okkur að hann muni finna leiðir til að halda okkur við efnið.
Efnisflokkar:
Elli Kelling
,
Faðir Tími
,
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Michael Jordan
,
Skoðanir