Saturday, September 29, 2012

Ellefu þúsund þristar á Suðurströnd










































Kannski hefur það gleymst í öllu skruminu í sumar. Meistaralið Miami er búið að bæta við sig tveimur af atkvæðamestu þriggja stiga skyttum sögunnar.

Annar þeirra er ein besta langskytta sögunnar og er á síðustu metrunum en vel brúklegur.

Hinn hefur átt í vandræðum í nokkurn tíma, en er nú í fyrsta skiptið á ferlinum kominn í lið þar sem allt annað en meistaratitill er klúður. Samt er varla nokkur pressa á honum. Hann þarf bara að dæla upp þristum þangað til hann verður þreyttur í höndunum. Hvert skot sem hann setur niður er plús.

Þetta eru vinirnir Ray Allen og Rashard Lewis, sem á sínum tíma léku saman hjá Seattle sáluga. Fóru þar fyrir afar skemmtilegu liði sem Nate McMillan fór með eins langt og hægt var.

Láttu þér ekki bregða þó Miami eigi eftir að setja nokkuð marga þrista í einhverjum leiknum í vetur. Þeir Rashard og Ray eru ekki búnir að taka nema rétt rúmlega ellefu þúsund þrista á ferlinum. Hitta úr 4400. Það er... ágætt.

Gaman að geta þess að hinn 37 ára gamli Ray Allen er að hefja sína 17. leiktíð með fjórða liðinu sínu á ferlinum. Stigameðaltalið hans stendur í nákvæmlega 20 stigum og þessi atkvæðamesta þriggja stiga skytta í sögu NBA hefur hitt úr nákvæmlega 40% þeirra.