Wednesday, June 6, 2012

Við viljum fleiri körfuboltaleiki


Oklahoma hefur ekki tapað á þessu gólfi í úrslitakeppninni. Margir leikjanna hafa verið hnífjafnir og æsispennandi í lokin, en alltaf hefur þeim tekist að landa þessu.

Dallas og Lakers náðu að hanga í þeim og ef þau hefðu haft heppnina með sér, hefðu þessar rimmur ef til vill þróast öðruvísi, en Oklahoma er með þrjá leikmenn sem vilja taka stór skot þegar allt er undir. Mörg lið hafa ekki einu sinni einn slíkan leikmann.

Oklahoma hefur unnið fyrir öllu það hefur fengið í úrslitakeppninni. Strákarnir eru búnir að slá út meistara ársins 2010 og 2011 - og eru nú komnir með liðið sem mjög margir spáðu sigri 2012 á ystu nöf.

Leikurinn í kvöld verður geggjaður!

Það er mjög líklegt að hávaðametið verði slegið í Oklahoma. Og það verður líka að teljast líklegt að Oklahoma loki þessu dæmi eftir frábæran sigur í San Antonio í leik fimm.

Kæmi samt ekki á óvart þó Spurs næði að jafna þetta og knýja fram oddaleik á heimavelli. Oklahoma stendur frammi fyrir því að loka sterkasta liðinu sem það hefur mætt í úrslitakeppni síðan það tapaði fyrir Dallas í fyrra.

Leikmenn San Antonio eru ekki hræddir við að fara í hávaðann í Oklahoma, hann hefur ekkert rosaleg áhrif á þá. Það eina sem skiptir máli er hvort þeir hafa enn trú á því að þeir geti unnið OKC eftir þrjú töp í röð.

Við liggjum á bæn og biðjum um sjö leiki í þessu einvígi. Það hefur verið stórkostlegt.

Meira, meira, meira!