Wednesday, June 13, 2012

LeBron James er í kunnuglegri stöðu:


Við erum ekki bara að skrifa þetta til að geta búið til óhemju asnalega fyrirsögn með orðaleik. Við sögðum ykkur í gær að heilsa Dwyane Wade ætti eftir að ráða úrslitum í úrslitaeinvíginu - hvorki meira né minna.

Nú höfum við bara séð einn leik og hann fór eiginlega alveg eftir bókinni.

Durant og Westbrook voru rosalegir hjá OKC, en það hlýtur að valda Miami áhyggjum að þrátt fyrir að hafa fengið 29 stig frá Battier og Chalmers og þrátt fyrir aðeins 5 stig frá Harden hjá OKC - tapaði liðið samt.

Aftur að Wade. Hann er nákvæmlega eins og hann var í Boston seriunni. Er ekki með kraft í löppunum til að framkvæma þessar fimleikaæfingar sem hann sýnir okkur þegar hann er heill.

Hnémeiðslin hans eru bæði að koma niður á skotinu hans og gegnumbrotum og satt best að segja er bara dapurlegt að sjá Wade taka snúning, hætta við að skjóta af því hann losar sig  aldrei við varnarmanninn - og gefa svo boltann frá sér.

Það getur vel verið að Wade eigi eina aftöppun eða eina sprautu inni í þessu einvígi, en ef hann fær ekkert svoleiðis og heldur áfram að spila eins og hann gerði í fyrsta leiknum, á Miami ekki möguleika í Oklahoma.

Við erum með öðrum orðum að segja að Miami muni tapa þessu einvígi.

Það telst því miður vera spá og því verður áhugavert að sjá hvernig við jinxum OKC með þessari yfirlýsingu. Ætti að kosta liðið sigurinn í næsta leik og jafnvel meiðsli hjá Westbrook eða Durant.

En Dwyane Wade er ekki heill og við erum sauðnaut að hafa ekki fattað það strax. Hann er svona átján sinnum betri en þetta þegar hann er í lagi. Hrikalega leiðinlegt.

Af þessu að dæma verður LeBron James að (halda áfram) spila yfirnáttúrulega vel til að Miami verði með í þessu einvígi. Þetta verður bara eins og gamla góða Cleveland. LeBron á móti heiminum.