Monday, March 5, 2012

Sögulegt kvöld hjá frábærum leikstjórnendum


Leikstjórnandastaðan hefur sjaldan eða aldrei verið sterkari en hún er í NBA í dag. Þessir ungu piltar eru alltaf að bæta sig og það er eins og annað hvort lið í NBA búi svo vel að eiga ás sem er á stjörnuliðskalíberi.


Tölfræðin sem leikstjórnendurnir voru að bjóða upp á í nótt fer í sögubækur, það er ekkert öðruvísi. Deron Williams skoraði 57 stig í sigri New Jersey Nets á ömurlegu Bobcats-liði. Þetta er einn mesti stigaleikur sem hreinræktaður leikstjórnandi hefur boðið upp á í sögu deildarinnar og þá er ekkert slor að hitta úr 21 af 21 skoti á vítalínunni.

Ef þú spyrð okkur er 18/17/20 leikur Bostonmannsins Rajon Rondo öflugri en skotsýning Deron Williams. Aðeins Wilt Chamberlain og Oscar Robertson hafa sett upp aðrar eins tölur í sögu deildarinnar en það að 185 cm og 84 kílóa maður skuli bjóða upp á þennan sóðaskap í nútíma NBA er ekkert annað en fáránlegt.

Það segir sína sögu um flugeldasýningu kvöldsins að frábærir leikir fjögurra annara miðjubakvarða skuli falla algjörlega í skuggann. Þeir Chris Paul og Derrick Rose fóru þó báðir fyrir sínum liðum í góðum sigrum og skiluðu frammistöðu vel yfir meðaltali. Þá var einvígi þeirra Tony Parker og Ty Lawson ekki mikið síðra. Það er dásamlegt að fylgjast með leikstjórnendum nútímans leika listir sínar í NBA.