Thursday, January 26, 2012

Spurningar um hugarfar


"What was your mindset coming into tonights game?" er óhemju algeng spurning af vörum hliðarlínufréttamanna í sjónvarpsútsendingum frá NBA leikjum.

Pau Gasol var spurður að þessu eftir góðan sigur Lakers á grönnunum í Clippers í nótt.

Oftast afgreiðum við hugleiðingar sem þessar á Twitter, en þessi tiltekna pæling tekur meira pláss en 140 stafi.

Hvað í ósköpunum ætlast þessi sjónvarpsmaður til að fá út úr leikmanninum með svona spurningu? Svona í alvöru.

Lauslega þýtt er spyrillinn að fiska eftir því hvert hugarfar leikmannsins hafi verið áður en hann steig inn á völlinn.

Eru góðar líkur á því að Gasol hefði svarað á þessa leið: "Hugarfarið var hræðilegt. Við vissum að við myndum tapa þessum leik," eða: "Mér fannst það gott, enda hlustuðum við allir á Geirmund Valtýsson áður en við mættum til leiks."

Það er óhjákvæmilegt að detti inn klisjur í íþróttaviðtölum, en sumar spurningar eru bara vanvirðing við viðmælandann og áhorfendur heima í stofu. Hvað varðar þetta meinta viðtal við Pau Gasol í nótt hefði spyrillinn allt eins getað spurt Spánverjann hvað hann ætti margar plötur með Dio eða hvort fílaði tannkrem með lakkrísbragði.

Við verðum að fara að hrista eitthvað upp í þessu. Þetta gengur ekki svona lengur

(Mynd: Jim Gray kemur þessu máli ekkert við, en er bara ógeðslegur og því kjörinn í að undirstrika boðskapinn í pistlinum)