Sunday, July 24, 2011

Það er gott að vera Dwight Howard


Áfram heldur bókaflokkurinn "Dauði Miðherjans" hér á NBA Ísland. Aumingja Dwight Howard fær aldrei frí frá öfund okkar og leiðindum. En það er nauðsynlegt að halda þessu til haga.

Þú verður að hafa eitthvað í höndunum þegar barnabörnin þín spyrja þig hvernig Dwigh Howard hafi farið að því að vera oftar í fyrsta úrvalsliði NBA deildarinnar en nokkur annar leikmaður í sögunni.*

Þegar kemur að því að skoða getu og stöðugleika leikmanna, eru úrvalsliðin miklu betri heimild en t.d. stjörnuleikir, en þó verður að rýna vandlega í listana, þeir segja ekki alla söguna.

Leikmenn geta til að mynda verið óheppnir með það hvenær þeir koma inn í deildina - sjáðu bara menn eins og Clyde Drexler. Hann spilaði í deildinni á svipuðum tíma og Michael Jordan og spilar sömu leikstöðu. Drexler hefði vafalítið verið oftar í fyrsta úrvalsliði ef hann hefði spilað á öðrum tíma en raun bar vitni.

Sömu sögu er að segja af miðherjunum sterku sem réðu ríkjum í teigum deildarinnar á tíunda áratugnum. Þeir Hakeem Olajuwon, David Robinson, Patrick Ewing og síðar Shaquille O´Neal, tóku mikið hver frá öðrum. Þessir höfðingjar væru fastagestir í úrvalsliðinu í dag en voru svo óheppnir að koma inn í deildina þegar staðan sem þeir spila var mjög sterk.

Dwight Howard getur ekkert að því gert þó hann hafi komið í heiminn í desember árið 1985, þó það sé að hluta til honum að kenna að hann beri nú höfuð og herðar yfir aðra miðherja í NBA deildinni.

Alveg var það eftir öllu að helsti keppinautur hans Yao Ming skuli hafa þurft að leggja skóna á hilluna langt um aldur fram. Það er ekki að sjá að hinum 25 ára gamla Howard verði ógnað á nokkurn hátt í miðherjastöðunni næstu árin og því ætti fyrsta úrvalslið að vera hans um ókomin ár.

Sagan á ekki eftir að fara illa með hann hvað þetta varðar, en á hinn bóginn má kannski segja að Howard fari illa með söguna.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

* Það verða að teljast ansi góðar líkur á því að Howard verði í fremstu röð næstu sjö árin og nái þar með að jafna met Karl Malone sem á sínum tíma var 11 sinnum í fyrsta úrvalsliði deildarinnar. 

11- Karl Malone
10- Elgin Baylor, Bob Pettit, Michael Jordan, Bob Cousy, Jerry West, Kareem Abdul-Jabbar
  9- Magic Johnson, Larry Bird, Oscar Robertson, Tim Duncan, Kobe Bryant.