Monday, June 20, 2011

Lewis, Bias og bölvunin


Reggie Lewis hafði nýverið tekið við keflinu af Larry Bird sem aðalmaðurinn hjá Boston þegar hann lést úr hjartaáfalli aðeins 27 ára að aldri árið 1993.

Þetta var svart sumar í sögu NBA því aðeins nokkrum vikum áður lést Króatinn Drazen Petrovic í bílslysi.

Lewis var þegar orðinn stjörnuleikmaður þegar hann lést og hefði eflaust haldið áfram að bæta sig ef hann hefði ekki fallið frá. Lewis var með hjartagalla.

Við skorum á yngri kynslóð NBA áhugamanna að kynna sér verk Lewis ef þeir hafa ekki þegar gert það. Þeir sem horfðu á hann spila muna hvílíkur gæðaleikmaður hann var.

Það hefði verið forvitnilegt að sjá hvernig hlutirnir hefðu þróast hjá Boston ef bæði Lewis og Len Bias hefðu lifað. Ótrúlegt að hugsa til þess að Boston hafi tvö ár í röð tekið gæðaleikmenn í nýliðavalinu sem báðir létust í blóma lífsins.

Boston tók Len Bias með öðrum valrétti í nýliðavalinu árið 1986 en hann lést tveimur dögum síðar úr of stórum skammti af kókaíni. Þegar þetta er ritað eru reyndar nákvæmlega 25 ár upp á dag síðan hann lést.

Margir vilja meina að Bias hefði orðið einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar ef hann hefði lifað, en ljóst er að hann hefði í versta falli orðið mikill liðsstyrkur fyrir Celtics. Mikilsvirtur maður sem fylgdist með Bias spila í háskóla lýsti honum sem "Michael Jordan with a jumpshot."

Árið eftir notaði Boston 22. valrétt til að taka Reggie Lewis sem segir okkur hve mikinn gullmola félagið fann þetta seint í háskólavalinu. Þessi draumur breyttist svo í martröð aðeins sex árum síðar.


Hér fyrir neðan er skemmtilegt myndbrot með Lewis í essinu sínu þar sem hann afrekar nokkuð sem óvíst er að nokkur maður hafi toppað fyrr né síðar.