Wednesday, June 8, 2011

Dallas jafnaði metin gegn Miami



Þetta var ekki glæsilegur leikur. Frekar ólíklegt að við sjáum hann rúlla aftur á ESPN Classic eða NBATV. En hann var skemmtilegur alveg eins og fyrstu þrír.

Nú er Miami búið að gefa frá sér tvo leiki sem það gat auðveldlega unnið. Leikurinn í nótt var ekki jafn mikil skita og annar leikurinn af hálfu Miami, en hann var þarna, þeir þurftu bara að taka hann.

Það var lok á körfunum. Dirk fær fyrirsagnirnar af því hann er veikur en Tyson Chandler var maður leiksins hjá Dallas. Án hans hefði liðið ekki unnið þennan leik. Terry er enn ekki að skila nógu miklu þó hann hafi verið stór í fjórða leikhlutanum í kvöld og Barea fann sig ekki betur í byrjunarliðinu en á bekknum. Dallas er búið að brenna af óhemju fjölda galopinna skota í þessu einvígi og það hlýtur bara að koma að því að liðið hitti á góðan leik í þeim efnum. Fimmti leikurinn er síðasti séns til þess. Vel gert hjá þeim að jafna þetta og gera þetta að seríu fyrir okkur.

Af Miami er það helst í fréttum að Dwyane Wade heldur áfram að spila eins og hann sé andsetinn. Hann var fáránlega góður í nótt. Klikkaði á stóru víti og missti boltann í síðustu sókninni, sem skemmir auðvitað fyrir, en hann var í stríði frá fyrstu mínútu. Það eru forréttindi að fá að sjá þennan mann spila körfubolta. Elskar að spila í lokaúrslitum og fórnar sér í allt. Veit líka hvað til þarf.

Það verður væntanlega mikið skrifað um frammistöðu LeBron James og stigin hans átta. Hann átti mögulega lélegasta leik sinn á ferlinum í úrslitakeppni. Það er eitt að vera í því hlutverki að búa til en annað að sýna enga grimmd í sóknarleiknum eins og hann gerði í þessum leik. Wade dró vagninn eins og hann hefur gert allt einvígið, en James getur ekki bara staðið úti í horni og nagað neglurnar. Þetta var furðulegt. Eins og Delonte West hefði kíkt í heimsókn. Þetta gengur ekki og LeBron og aðrir í Miami-liðinu verða að fara að taka Wade til fyrirmyndar og taka slaginn eins og menn.

Allir sem hafa gaman af körfubolta gleðjast yfir því að staðan sé orðin 2-2 og ljóst að við fáum amk sex leiki í þessu einvígi. Einn sigur getur breytt mjög miklu í lokaúrslitum og þessi gerir það. Dallas var sært fórnarlamb fyrir leikinn í kvöld en beit frá sér og fær nú annan séns til að taka frumkvæðið. Það mistókst í leik þrjú en það verður að takast í leik fimm á fimmtudaginn. Verður.