Friday, June 10, 2011

Dallas er komið með yfirhöndina í úrslitaeinvíginu


Þetta var leikurinn sem við vorum búin að bíða eftir frá Dallas. Heimaleikur þar sem hittnin var góð, Dirk á pari og þeir Barea og Terry að skila vel í sókninni. Frábær hittni Dallas þýddi að liðið mátti við því að vera útfrákastað. Vel gert hjá Dallas að ná forystu í einvíginu og búa sér í leiðinni til ágætan séns á titlinum.

Miami fékk líka fínt framlag frá aukaleikurum en allra augu beinast auðvitað að LeBron James. Hann spilaði mjög vel og var með þrennu (17/10/10) en tók lítið sem ekkert til sín í fjórða leikhlutanum frekar en undanfarið. Sendingar hans og það sem hann var að skapa fyrir aðra var reglulega flott, en það verður einhver að slútta.

Það gekk ekkert hjá Miami í sókninni undir lokin og þó fólk langi að nota þetta tækifæri til að hengja LeBron James, er þetta alls ekki nýtt vandamál hjá Heat. Liðinu gekk ömurlega í jöfnum leikjum í allan vetur. Wade er sá sem lokar hjá Miami í þessari seríu og meiðslin hans hafa trúlega ekki hjálpað honum í kvöld. Meiðsli hafa heldur ekki hjálpað Dallas, svo við ræðum það ekkert frekar.

Þetta úrslitaeinvígi er hágæða skemmtun og ekkert annað. Mikið má vera ef við fáum ekki leik sjö annað árið í röð bara. Kemur í ljós á sunnudaginn, það yrði ekki leiðinlegt. Restin af einvíginu fer fram í Miami, sem gerir þetta enn meira spennandi. Miami menn geta huggað sig við að vera með heimavöllinn ef þeir eru hræddir við að lenda undir 3-2.

P.s. - Mörgum er mál að drulla yfir LeBron James en það ætlum við ekki að gera. Það er pistill á leiðinni um James og hvað við eigum að halda um hann. Líklega verður hann þó ekki skrifaður fyrr en eftir að úrslit liggja fyrir, þó það skipti í sjálfu sér ekki höfuðmáli.