Friday, April 1, 2011

Aprílgabb á körfuboltavelli


Rétt eins og til að halda upp á daginn var þriðji leikur KR og Keflavíkur í undanúrslitunum í kvöld ekkert annað en lygilegur.

Það eru forréttindi að fá að horfa á svona leiki. Stemmarinn í DHL höllinni var eins góður og hann verður. Húsið var nánast troðfullt og hávaðinn meiri en við höfum nokkru sinni upplifað í þessu húsi.

Þetta var algjör hágæðaskemmtun frá a til ö. Sveiflur og drama og framlenging. Allt eins og það á að vera í úrslitakeppninni. KR og Kef hata nú ekki dramað eins og þið vitið.

Við verðum að hrósa Keflavík fyrir frammistöðuna í kvöld. Einhver lið hefðu bugast og lagst grátandi í gólfið, en Keflvíkingar sýndu stolt og geta nú gert seríu úr þessu með því að verja heimavöll sinn í næsta leik.

Allir sem hafa áhuga á körfubolta á Íslandi annað hvort mættu í höllina eða horfðu á leikinn á Sportinu. Þið sáuð þetta.

Það er svo rosalega gaman að horfa á svona leiki. Úrslitakeppnin er allt of stutt. Það eru leikir eins og þessi sem fá menn til að nenna að svitna í þessu allan ársins hring. Frábært að fá að minnsta kosti einn leik í viðbót í þessari seríu.