Monday, March 21, 2011
Heimabrugg: Stjarnan inni, Njarðvík ekki svo mikið
Við skelltum okkur í Ásgarðinn í gærkvöld og sáum Stjörnuna tryggja sér oddaleik gegn Grindavík.
Stjarnan vaknaði ekki fyrr en Pax var búinn að drilla 10 stigum í röð í byrjun en eftir það var leikurinn heimamanna.
Það verður bara að koma fram að þessi leikur var á löngum köflum hálfgert blackmetal. Það var vegna þess að það var ekkert flæði í honum. Grindavík, með þennan fína mannskap, er í algjöru puði allan leikinn af því liðið er ekki með leikstjórnanda.
Fyrir vikið fara andstæðingarnir að pressa þá út og suður og úr verður eitthvað sem ekki er hægt að kalla skemmtilegan körfubolta. Stjörnumenn eru stundum engu skárri, því boltinn á það til að límast allt of mikið við lúkurnar á Justin Shouse.
Stjörnumenn unnu leikinn í gær af því þeir vildu sigurinn meira en gestirnir. Spurning hvort það hungur nær til Grindavíkur á miðvikudaginn. Það verður rosalegur slagur.
Grindvíkingar eru að okkar mati með meira talent en Stjarnan er miklu meira lið. Það hefur verið dálítið í tísku að drulla yfir Nick Bradford að undanförnu og tala um að hann sé ekki í toppformi. Það er svo sem alveg rétt en hann er heldur ekki að spila sömu rullu og áður.
Þýðir ekkert að fussa yfir því að hann sé að skora lítið, það er ekki verið að spila mikið upp á hann. Töpuðu boltarnir hans sjö í þessum leik voru samt slæmir á að horfa, en hann þurfti að gera meira en honum var hollt af því að bera upp boltann og er of þungur á sér til þess.
Hræðilegt að horfa upp á Helga Jónas og Þorleif Ólafs í hversdagsklæðnaði á hliðarlínunni en ekki inni á vellinum. Þeir eru greinilega meiddir, annar myndu þeir ekki horfa upp á liðið sitt tapa 25 boltum - það eru fleiri en Njarðvík og KR töpuðu samanlagt í sinni viðureign.
Talandi um Njarðvík og KR. Ansi margir voru búnir að halda því fram að Njarðvík ætti eftir að slá KR út en annað kom á daginn. Svona er þetta stundum. Flott hjá KR að vinna seríuna svona sannfærandi - verðum að segja að það kom okkur líka nokkuð á óvart.
Það sem kom ekki á óvart var að Pavel vinur okkar subbaði upp 16 stiga, 18 frákasta og 9 stoðsendinga leik í Njarðvík. Það var hinsvegar lélegt hjá honum að klára ekki þrennuna og skítlélegt hjá honum að ná ekki jafn mörgum fráköstum og allir hinir KR-ingarnir til samans (19). Líklega verið off dagur hjá honum.