Wednesday, March 16, 2011

Biðin stytt með Leið Okkar Allra


Spennan í pásunni fram að úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar er óbærileg. Við leystum það með því að kíkja aftur á "Leið okkar allra" - heimildarmyndina um sögulega framgöngu Snæfellsliðsins á síðustu leiktíð.

Snæfell sópaði til sín öllum titlum sem máli skiptu á síðustu leiktíð og segja má að liðið hafi dregið körfuboltafána landsbyggðarinnar að húni. Það er með ólíkindum að lið frá svona litlu og afskekktu bæjarfélagi eins og Stykkishólmi skuli vera svona sigursælt, en í myndinni er einmitt farið ofan í saumana á starfinu hjá félaginu.

Þar er líka að finna skemmtileg viðtöl við leikmenn og þjálfara og með í pakkanum fylgir aukadiskur með þremur af eftirminnilegri leikjum Snæfells, bikarúrslitaleiknum gegn Grindavík, oddaleiknum við KR og svo oddaleiknum við Keflavík í lokaúrslitunum, sem er einn eftirminnilegasti leikur síðari ára.

Það er tilvalið að skella þessari ræmu í tækið til að hita upp fyrir úrslitakeppnina, það á enn að vera hægt að fá hana í gegn um leikbrot.is. Það er rosalega gaman að einmitt þetta tímabil hafi orðið fyrir valinu hjá kvikmyndagerðarmönnunum, því svona öskubuskuævintýri gerast ekki á hverjum degi. Það er dýrmætt að eiga svona grip á plasti svo við getum rifjað upp góðar minningar með augunum, ekki bara í huganum. Þetta er frábært framtak og vonandi verða komandi tímabil fest á plast með svipuðum hætti.

Við höfum verið einstaklega heppin með lokaúrslitaeinvígin undanfarin ár og það verður ekki auðvelt fyrir liðin núna að toppa seríur eins og KR-Grindavík og Keflavík-Snæfell í fyrra. En samt er alltaf eins og karfan hér heima bjóði upp á hágæða drama og spennu. Megi það halda áfram sem lengst.