Friday, February 25, 2011

Kendrick Perkins er hættur að spila körfubolta í Baunabæ


Ansi há prósenta lesenda þessarar síðu eru grænir í gegn. Þeir eiga vafalítið eftir að sakna Kendrick Perkins mikið þó hann brosi ekki allan sólarhringinn. Ekki síst ef hlutirnir ganga nú ekki upp hjá Boston í sumar, því þá leyfum við okkur fullyrða að gluggi tækifæranna hjá þessum leikmannakjarna Celtics muni lokast að mestu.

Fjarvera Perkins verður að okkar mati eitt af stærstu söbb-plottunum í úrslitakeppninni í vor og menn verða ekki lengi að benda á það ef illa fer. Það verður á hinn bóginn fróðlegt að fylgjast með því hvernig Perk á eftir að vegna í nýju vinnunni sinni. Eitt er víst, þeir hafa næg not fyrir hann í Oklahoma.

Ef marka má viðtal við Nate Robinson, meðreiðarsvein Perkins á leið til Oklahoma, var sá stóri gjörsamlega miður sín yfir fréttunum af skiptunum og grét. Það er skiljanlegt þegar menn eru búnir að vera alla sína tíð hjá sama félaginu. Gangi þér vel, fýlustrumpur.