Monday, February 28, 2011
Fregnir af andláti NBA meistara reyndust ýktar:
Er þetta þessi krísa hjá Lakers sem allir eru að tala um? Vinsamlegast! Það getur vel verið að hafi ekki verið glans á meisturunum undanfarið (maður tapar bara ekki fyrir Cleveland) en það eru leikir eins og þessi við Oklahoma í kvöld sem sýna okkur að NBA-pennar hafa farið offari að undanförnu þegar þeir skrifa Lakers-liðið nánast út af landakortinu af því það tapaði nokkrum leikjum.
Þrefaldir NBA meistarar eru ekki að hengja haus þó þeir tapi fyrir lélegasta liðinu í deildinni. Láta það ekki hafa áhrif á sig þó þeir séu kannski ekki að fara að vinna 65 leiki. Skítsama. Þeir taka þátt í deildakeppninni til að stilla saman strengi, æfa sig og ná heimavallarrétti sem lengst í úrslitakeppninni. Það sem skiptir samt mestu máli er að reyna að sleppa við meiðsli. Öll meistaralið í NBA síðustu 30 ár hafa verið heppin með meiðsli. Hvert eitt og einasta.
Oklahoma er með smá timburmenn eftir öskubuskuævintýrið í fyrra. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þetta eru ungir strákar og gera bæði stórkostlega hluti og barnaleg mistök eins og þeir sýndu í kvöld. Lið Thunder er geysilega skemmtilegt, en það er fjarri því fullkomið. Það verður gaman að sjá hvernig Kendrick Perkins getur hjálpað þessu liði, en hann er varla síðasta púslið.
Oklahoma er ekki að fara að slá Lakers af stalli. Ekki í ár. Kannski seinna.