Monday, January 10, 2011

Klisjukennd fyrirsögn um bölvun á Cleveland og virði LeBron James


Taflan segir okkur að Cleveland sé lélegasta liðið í NBA deildinni í dag. Hvort sem það er satt eða ekki, hefur þessi leiktíð hjá Cavs verið hryllingur. Og hún var að versna rétt í þessu.

Anderson Varejao þarf í uppskurð vegna ökklameiðsla og gæti misst af því sem eftir er af leiktíðinni. Það er ekki hægt að ljúga upp á þennan klúbb.

Varejao er langfrákastahæstur í liðinu, mikill orkubolti og solid leikmaður. Hans verður mikið saknað fram á vorið.

Það er ekki talað mikið um það, en hvað segir staða Cleveland okkur um LeBron James?

Hann var auðvitað ekki eini maðurinn sem fór frá Cleveland í sumar, en það er útlit fyrir 30-40 leikja niðursveiflu hjá Cavs frá í fyrra. Svörtustu spárnar í sumar sögðu þetta.

Það er fyrst og fremst brotthvarf LeBron James sem skapar þetta hrun hjá liðinu. Við vissum að LeBron væri góður, en kannski er að koma á daginn að fyrrum liðsfélagar hans kunni ekki körfubolta.

Það er ekki hægt að þakka einum manni það að Cleveland hafi unnið í kring um 60 leiki á síðustu árum James. Það vinnur enginn einn maður 60 leiki, sama hversu góður hann er. Því verðum við að áætla að liðsfélagar hans hafi verið ágætir spilarar. Eða hvað?

Ef þú segir að liðsfélagar James séu drasl, ertu um leið að viðurkenna hvað LeBron er góður.
En ef þú segir að þeir séu góðir, lítur þú út eins og fáviti af því liðið er jú í neðsta sæti deildarinnar.

Á að kenna Byron Scott um þessi ósköp? Eða bara þeirri alsherjar bölvun sem virðist hafa sest að í Cleveland og hefur engin áform uppi um að fara eitthvað annað? Misstu leikmennirnir sem eftir stóðu áhugann á að spila körfubolta yfir höfuð þegar James fór?

Þú verður að velja.