Wednesday, January 5, 2011

Þeir troða körfuboltum um Al-stjörnuhelgina


LA Times er búið að skúbba því hverjir verða í troðkeppninni um Al-Stjörnuhelgina í Englaborginni í næsta mánuði. Venjulega værum við ekki spennt fyrir þessari keppni, en við erum gengin í barndóm út af Blake Griffin.

Ef marka má LA Times taka eftirtaldir þátt í keppninni: Blake Griffin frá LA Clippers, JaVale McGee frá Washington, Serge Ibaka frá Oklahoma og Brandon Jennings frá Milwaukee.

Þetta er mjög áhugaverður listi svo ekki sé meira sagt. Einn stubbur og þrír risar.

 Það hefur komið í ljós í gegn um árin að það að troða skemmtilega í leikjum í NBA þýðir alls ekki að þú sért að fara að gera einhverjar rósir í troðkeppninni (sjá: Kemp, Shawn). Við vonum samt auðvitað að Griffin sýni okkur eitthvað rugl og vinni.

Það er þó eitt sem við getum öll glaðst yfir. Hvorki Dwight Howard né Nate Robinson taka þátt í ár.