Tuesday, December 14, 2010

Það boðar gott að tapa fyrir Rúdolf í körfubolta


Tölfræðingar eru dásamlegt fólk. Þeir hafa til dæmis grafið það upp að Dallas eigi titilinn vísan næsta sumar.

Þetta vita þeir, af því Dallas liðið tapaði nokkuð óvænt fyrir Milwaukee Bucks á heimavelli í gær og gerði þar með að engu tólf leikja sigurgöngu sína. En hvernig hefur það áhrif á titilvonir Dallas?

Jú, sjáðu til...

Milwaukee stöðvaði frægustu sigurgöngu allra tíma í NBA þegar það stöðvaði ofurlið LA Lakers á 33 leikja sigurgöngu sinni í janúar árið 1972. Það er lengsta sigurganga sögunnar í NBA og Lakers, með þá Chamberlain, West og Goodrich í fararbroddi, landaði titlinum þá um vorið.

En þetta er ekki eina langa sigurgangan sem Milwaukee hefur stöðvað í gegn um tíðina.

Árið 1973 stöðvaði Milwaukee tólf leikja sigurgöngu Boston Celtics, árið 1983 bundu þeir enda á 14 sigurleikja hrinu hjá Philadelphia 76ers og árið 2007 voru þeir enn að verki þegar þeir stöðvuðu San Antonio eftir að liðið hafði unnið þrettán leiki í röð.

Þegar hingað er komið í færslunni ertu væntanlega búinn að leggja saman tvo og tvo og átta þig á því að öll þessi lið sem enduðu sigurgöngur sínar gegn Bucks unnu meistaratitilinn vorið eftir.