Sunday, November 7, 2010

Sé Pé Þrír


Deilurnar um það hver sé besti leikstjórnandi NBA deildarinnar hafa líklega aldrei verið háværari en núna. Ástæðan er líklega tvíþætt.

Það kemur minnst einn góður leikstjórnandi fram í NBA á móti hverjum góðum leikmanni í öllum hinum leikstöðunum til samans. Ekki mikið af stórum strákum að koma upp. Þess vegna biðjum við æðri máttarvöld daglega að passa pilta eins og Blake Griffin.

Nú ætlum við ekki að fara að deila um það hver sé besti leikstjórnandi deildarinnar. Það er gagnslaust. Það fer bara eftir stíl hvers liðs fyrir sig hvernig leikstjórnandi hentar því best.

Þannig tók til dæmis Utah Deron Williams frekar en Chris Paul í nýliðavalinu á sínum tíma. Af því hann hentaði leikstíl liðsins betur. Jazz tæki Williams í dag ef félagið stæði frammi fyrir sama vali, af því hæfileikar hans nýtast liðinu betur en hæfileikar Paul.

Margir sáu Chris Paul fara á kostum með New Orleans í sigrinum á Miami á föstudagskvöldið. Sannarlega stórkostlegur leikmaður þar á ferð.

Við heyrðum menn velta því fyrir sér hvernig það væri ef Paul yrði til dæmis leikstjórnandi Boston Celtics í dag. Hvort hann yrði enn betri með svo góðan mannskap í kring um sig. Skemmtileg pæling. Yrði hann betri leikmaður, með betri tölfræði og yrði Boston betra lið?

Chris Paul er vissulega einn allra besti leikstjórnandi heimsins og við ætlum ekki að rífast við þá sem setja hann í efsta sætið, en það er ekkert leyndarmál að leikstíll New Orleans er Paul mjög hliðhollur tölfræðilega.

Það er alveg sama hver hefur verið þjálfari hjá Hornets. Alltaf gengur ALLUR sóknarleikur liðsins í gegn um Paul.

Það er kannski ekki skrítið að hann komi mikið við sögu, en við erum að tala um ALLAR sóknir.

Ef Hornets-liðið skorar körfu í sókninni, er hún annað hvort skoruð af Paul eða eftir stoðsendingu frá honum. Fjarkinn eða fimman setja hindrun fyrir Paul á toppnum, hann keyrir í gegn um velur úr möguleikunum sem koma í framhaldinu.

Mjög árangursríkur sóknarleikur yfirleitt og ekkert nema gott um það að segja, en það er kannski ekki furða að Chris Paul sé alltaf með þessar rosalegu tölur.