Sunday, November 28, 2010

Chicago segir sirkusferð smirkusferð:


Við vorum að tala um Chicago Bulls í síðustu færslu og ætlum að gera það í þessari líka. Verðum bara að gera það. Ekki annað hægt. Á meðan stuðningsmenn liða eins og LA Clippers, Portland og Atlanta eru í þunglyndi, hljóta stuðningsmenn Chicago Bulls að vera afskaplega ánægðir með sína menn núna.

Við höfum aldrei haldið með Chicago Bulls, en stundum haft gaman af þessu liði. Og aldrei eins mikið og núna. Það er augljóst að andinn hjá leikmönnum liðsins er góður og það skiptir auðvitað miklu máli.

Það er einfaldlega veisla að horfa á Derrick Rose og Joakim Noah spila körfubolta. Rose með ótrúlega hæfileika sína í sókninni og Joakim Noah með varnarleik sínum, fráköstum, dýrslegri baráttu og keppnisanda. Ef við mættum velja okkur einn miðherja í NBA til að setja í okkar lið - væri það Noah. Eins og við hötuðum hann nú fyrst þegar hann kom inn í deildina. Ef hann væri aðeins myndarlegri og með betra skot, væri hægt að kalla hann Hlyn Bæringsson NBA deildarinnar.

Haustin eru jafnan erfið fyrir Chicago Bulls vegna sirkus-ferðalagsins árlega í nóvember. Í nótt varð ljóst að Bulls kæmi með jákvætt vinningshlutfall út úr þessari ferð í fyrsta skipti síðan á síðasta ári Michael Jordan með liðinu haustið 1997. Þetta voru sjö útileikir í röð, nokkrir gegn mjög sterkum liðum úr Vesturdeildinni og endaði Chicago 4-3 í túrnum. Óheppnir að vera ekki 5-2 (sjá síðustu færslu) þrátt fyrir talsverð meiðsli á mannskapnum.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta lið kemur út þegar Carlos Boozer verður kominn á fullt og farinn að spila vegg og veltu við Derrick Rose. Chicago liðið er ekki gallalaust en það verður frábært að sjá hvað það kemst langt í ár.  Við öfundum stuðningsmenn Chicago Bulls. Það er örugglega öskrandi skemmtilegt að halda með þessu liði núna. Mælum með því að þú farir að halda með Bulls ef þú átt þér ekki uppáhalds lið í NBA.