Thursday, October 14, 2010

Tæknimálin


Dómarar í NBA deildinni eru búnir að skerpa aðeins á línum í gæslunni í ár rétt eins og kollegar þeirra hér heima. Þeir gráklæddu nota undirbúningstímabilið gjarnan til að kynna þessar áherslubreytingar og þær eru þegar farnar að hafa áhrif á leiki og leikmenn.

Í NBA hefur dómurum verið uppálagt að herða mjög tökin í tæknideildinni í vetur. Tuð, nöldur, æsingur, mótmæli og tilþrifamikið látbragð leikmanna í garð dómara verður framvegis ekki liðið.

Það verður að segjast eins og er að kannski var tími til kominn að taka aðeins á þessu. Í deildinni finnast leikmenn sem hafa verið hreint út sagt óþolandi þegar kemur að nöldri og stælum út í dómara. Og það gjarnan í hvert einasta skipti sem þeir beita flautunni - ekki bara stundum.

En þessi lína sem dómararnir eru að vinna eftir núna er að flestra mati full ströng. Núna er það þannig að leikmenn verða bara að gjöra svo vel og þegja og ganga í burtu þegar dæmt er á þá (eða ekki dæmt), annars fá þær tæknivillu.

Við höfum þegar fengið að sjá nokkuð gróf dæmi um þetta. Í fyrrinótt setti prúðmennið Kyle Korver hjá Chicago niður skot og vildi meina að slegið hefði verið í hönd sína í kjölfarið. Hann skokkaði til baka, leit á dómarann og benti sakleysislega á olnbogann á sér. Hann fékk tæknivillu.

Í nótt áttust New York og Boston við og þar voru dæmdar fjórar tæknivillur á tveggja mínútna kafla. Tvær af þessum fékk Kevin Garnett á einhverjum 10 sekúndum fyrir að "ræða málin" við dómara eftir því sem við komumst næst - og var fyrir vikið rekinn í bað.

Garnett er einn af þeim leikmönnum sem gæti séð fram á hvað mesta vinnu við að aðlagast þessum nýju reglum. Maðurinn er fellibylur af tilfinningum sem þurfa að fá útrás í leikjum. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann og fleiri heitir karlar í deildinni ná að hemja sig í þessu nýja umhverfi.

Eitt er víst. Rasheed Wallace valdi sér hárréttan tíma til að leggja skó sína á hilluna.

Við eigum eftir að sjá betur hvernig þessar áherslubreytingar koma út þegar alvaran byrjar, en við óttumst að hér séu forráðamenn deildarinnar að taka enn eitt skrefið í áttina að því takmarki sínu að breyta NBA deildinni í ljóðakvöld hjá kvenfélaginu.

Gott og vel, væl er leiðinlegur hlutur af leiknum, en það er líka verið að sauma hart að leikmönnum og banna þeim að sýna tilfinningar á vellinum - nokkuð sem tíðkast hefur síðan við byrjuðum að fylgjast með NBA og verið hefur skemmtilegur hluti af leiknum allar götur síðan.

Kannski hefði verið sniðugra að taka fastar á leikaraskap og floppi, leiðindum sem hafa verið að færast sorglega mikið í aukana á síðustu árum.