Monday, October 25, 2010
Heimabrugg: Takk fyrir okkur
Auðvitað mættum við í DHL höllina í gærkvöldi til að sjá tvo uppáhalds leikmennina okkar etja kappi. Sáum Pavel og félaga í KR taka á móti ungum og sprækum Fjölnismönnum.
Skemmst frá því að segja að áhorfendur fengu fullt af tilþrifum fyrir peninginn sinn. Það var ekki við öðru að búast þegar Pavel Ermolinskij og Ægir Þór Steinarsson spila körfubolta.
Takk fyrir það strákar.
Þeir létu bæði áhorfendur og blaðamenn hrópa "vá" og "nauuuu!" nokkrum sinnum. Þetta er svo fallegur leikur.
Fyrri hálfleikurinn var frábær skemmtun en sá síðari ekki eins góður. Það var mikið til af því KR-ingar hertu tökin í vörninni og unnu að lokum nokkuð átakalítinn sigur.
Ægir lenti í villuvandræðum og þegar svo er fer Fjölnisliðið ekki upp úr þriðja gírnum. Geitungurinn var samt frábær í leiknum og skilaði 14 stigum, 12 stoðsendingum, 5 fráköstum og 5 stolnum á innan við 30 mínútum.
Það eru forréttindi að fá að horfa á hinn íslenska Chris Paul spila körfubolta.
Okkar maður Ermolinskij var auðvitað í þrennugírnum eins og venjulega. Skilaði léttum 15/11/11 leik og er að bjóða upp á 15,3 stig, 12,8 fráköst og 9,3 stoðsendingar að meðaltali í leik það sem af er. Ekkert annað en klámfengin tölfræði.
NBA Ísland verður á þrennuvaktinni með Pavel í allan vetur og stefnum á að afhenda honum einhver falleg verðlaun ef hann verður með þrennu að meðaltali í deildinni.
Finnur var flottur í teignum og bauð upp á mjög solid 19/10 leik (og game best +28). Ólafur Ægisson er líka að gefa KR lúmsk 10 stig og fína nýtingu í fyrstu leikjunum.