Monday, October 11, 2010

Heimabrugg: Stop, Hammer Time!


Við kíktum í Ásgarðinn í gærkvöldi og sáum Stjörnumenn vinna Fjölni. Mikilvægur sigur hjá heimamönnum eftir svekkjandi tap fyrir KR í fyrstu umferðinni. Stjarnan var bara of stór biti fyrir Grafarvogspilta í kvöld en það breytir því ekki að við ætlum að mæta á eins marga Fjölnisleiki og við getum í vetur.

KR meig undir fyrir austan fjall og tapaði fyrir Hamri. Eitthvað segir okkur að t.d. Darri Hilmarsson hafi ekki verið að hata það. Pav var langt frá sínu besta og það kann ekki góðri lukku að stýra fyrir þá svarthvítu. Þú ræður hvort þú skrifar þetta tap á styrk Hamarsmanna eða off dag hjá KR en meistaraefnin verða auðvitað að klára svona leiki - mega ekki láta lið sem liggur ekki að sjó útfrákasta sig.

Okkur skilst að menn hafi tekist ansi hart á í Grindavík þegar heimamenn lögðu KFÍ. Við erum ekki hissa á því. Við vorum að skoða KFÍ dálítið á undirbúningstímabilinu og sáum liðið m.a. refsa Stjörnunni. Það er bara ekkert pikknikk að spila við vestfirðingana. Þeir eru vægast sagt pesky. Grindavík er hinsvegar lið sem hefur hingað til ekki þótt þægilegt að spila við pesky lið og því var þetta fínn sigur fyrir þá - án Pax. Fín byrjun hjá Helga Jónasi.