
Eins og til að sanna fyrir umheiminum að liðið þjáist af körfuboltageðklofa, völtuðu Lakers menn yfir næst besta liðið í Vesturdeildinni í nótt - Dallas Mavericks.
Það skyggði eilítið á sigurinn að Pau Gasol fór meiddur af velli snemma leiks. Ekki á hægri hnésbótarsin líkt og í haust - heldur þeirri vinstri.
Og hvað gerir týndur Andrew Bynum um leið og sá spænski fer af velli? Spilar vel. Ætli sé fylgni að finna í þessu?
Það getur vel verið að Dallas hafi verið að spila annan leik sinn á tveimur dögum og að Erick Dampier hafi ekki verið með, en það sem okkur þykir merkilegast við blásturinn í gær er sú staðreynd að Lakers liðið fékk allt í einu góðan leik frá varamönnum sínum. Ótrúlegt alveg.
Annars voru öll úrslit kvöldsins áhugaverð á sinn hátt. En það er auðvitað ekkert nýtt í deildinni fögru.