Monday, January 4, 2010

Doktor Lakers og Herra Lakers


Hvað er langt síðan við skrifuðum að meistarar LA Lakers væru ekki sannfærandi? Einmitt. Nokkrir klukkutímar.

Eins og til að sanna fyrir umheiminum að liðið þjáist af körfuboltageðklofa, völtuðu Lakers menn yfir næst besta liðið í Vesturdeildinni í nótt - Dallas Mavericks.

Það skyggði eilítið á sigurinn að Pau Gasol fór meiddur af velli snemma leiks. Ekki á hægri hnésbótarsin líkt og í haust - heldur þeirri vinstri.

Og hvað gerir týndur Andrew Bynum um leið og sá spænski fer af velli? Spilar vel. Ætli sé fylgni að finna í þessu?

Það getur vel verið að Dallas hafi verið að spila annan leik sinn á tveimur dögum og að Erick Dampier hafi ekki verið með, en það sem okkur þykir merkilegast við blásturinn í gær er sú staðreynd að Lakers liðið fékk allt í einu góðan leik frá varamönnum sínum. Ótrúlegt alveg.

Annars voru öll úrslit kvöldsins áhugaverð á sinn hátt. En það er auðvitað ekkert nýtt í deildinni fögru.